Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 19. nóvember 2018 12:00
Elvar Geir Magnússon
Freyr: Runnum á rassgatið með fyrsta verkefnið
Icelandair
Erik Hamren og Freyr Alexandersson.
Erik Hamren og Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í nýjasta Innkasti Fótbolta.net rifjar Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari upp skellinn gegn Sviss í september, 6-0 tapið í fyrsta leik Þjóðadeildarinnar.

Hann segir að það hafi verið erfitt að búa sig undir leikinn gegn Belgíu sem kom stuttu síðar.

„Að koma eftir þann leik og spila gegn Belgíu var bara mjög erfitt, það var gríðarlega erfitt. Þá vorum við mögulega hræddir að spila við svona sterkt lið eftir svona högg," segir Freyr sem var á þessum tíma að klára sitt verkefni sem þjálfari kvennalandsliðsins.

Hann viðurkennir að það hafi reynst erfitt að sameina þetta tvennt og það hafi ekki hjálpað nýjum landsliðsþjálfara, Erik Hamren.

„Fyrsta verkefnið var agalegt ef ég á að vera hreinskilinn. Ég var alveg á kafi í öðru verkefni og hugur minn og skylda voru þar. Á sama tíma er karlalandsliðið að fara inn í nýtt verkefni og Erik var enginn greiði gerður að ég væri hálfur með honum í því verkefni. Við runnum á rassgatið með það en síðan hefur það þróast mjög vel."

Hann segir að Hamren sé mikið að vinna í einstaklingssamtölum með leikmönnum og að samstarf sitt við hann sé sífellt að verða betra. Hann hafi þurft að læra inn á ný vinnubrögð og að öðruvísi sé fyrir sig að samskiptin fari fram á ensku.

„Samstarfið hefur verið betra og betra. Erik hefur helling fram að færa. Hann er algjörlega óhræddur við að taka stórar ákvarðanir og standa með þeim. Hann er líka mjög hreinskilinn og gengur mikið á menn og segir þeim hvernig hlutirnir eiga að vera og hvernig ekki," segir Freyr sem ræðir einnig um það hvernig sé að stíga úr aðalþjálfarahlutverki í aðstoðarþjálfarann.

„Að fara inn í aðstoðarþjálfarahlutverk hefur alveg tekið á mig persónulega. Ég er frekar dóminerandi oft. Það koma aðstæður þar sem ég vil stjórna en það er bara ekki mitt hlutverk. Ég fór undirbúinn í það að styðja við aðalþjálfarann og vera tengiliður milli hans og leikmannana. Ég á í góðu sambandi við leikmennina."

Þessi gluggi undarlegur og erfiður
Meiðslahrina íslenska landsliðsins í yfirstandandi glugga hefur verið með hreinum ólíkindum og listi yfir leikmenn sem hafa forfallast er sögulega langur. Þetta hefur sett strik í reikinginn.

„Þetta hefur verið langt frá því að vera eins og ætlað var í upphafi, ekki bara þessi gluggi heldur í raun allir þrír. Við höfum alltaf þurft að bregðast við aðstæðum. Þessi nóvembergluggi hefur verið undarlegur og erfiður fyrir nýjan þjálfara, þá er ég sérstaklega að tala um Erik," segir Freyr.

„Það er ekki óskastaða að fara í gegnum þrjá landsliðsglugga án þess að ná að stilla upp því sem þú telur vera sterkasta íslenska landsliðið. Hinsvegar finnst mér þetta hafa gengið þokkalega vel. Þetta hefur verið mikið púsluspil og margt sem þurft hefur að breyta í þjálffræðinni, leikfræðinni og líka hvernig þú kynnist leikmönnum."

„Þessu fylgja vissulega jákvæðir þættir en eðlilega bitnar þetta á möguleika okkar á að ná í úrslit, Það segir sjálft."

En eru öll þessi meiðsli núna tilviljun eða er einhver skýring á þessu?

„Það eru óhöpp inn á milli sem eru tilviljanir, eins og með Hólmar (Örn Eyjólfsson). Það er bara slys sem er agalegt. Mögulega aðeins Rúnar Már líka. Önnur meiðsli í fljótu bragði eru þess eðlis að það er einhver undanfari á þeim og þau eru álagstengd mörg hver. Mörg sem voru byrjuð fyrir HM og menn eru enn að baxa með. Þetta eru ekki bara tilviljanir," segir Freyr.

„Kjarninn í hópnum, þessir leikmenn sem hafa spilað stóru leikina og náð í þessu stóru úrslit, eru að eldast eðlilega. Þeir munu verða meira meiddir en fyrir fjórum til fimm árum. Það fylgir álaginu."

„Núna höfum við blóðgað fullt af leikmönnum, fleiri en áætlað var. Við erum mögulega komnir með meiri breidd og verðum að vera betur í stakk búnir til að takast á við áföll. Ég fullyrði að við munum aldrei aftur vera með svona marga meidda. Þetta hlýtur að vera einsdæmi og við trúum því. En ef það koma meiðsli þá verða þeir leikmenn sem koma inn vonandi betur undirbúnir fyrir þau verkefni og betur tilbúnir að ná byrjunarliðssæti í framtíðinni."

Smelltu hér til að hlusta á 45 mínútna spjall við Frey í Innkasti frá Belgíu
Athugasemdir
banner
banner
banner