Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 19. nóvember 2018 13:47
Elvar Geir Magnússon
Eupen
Allt snýst um að toppa á HM 2022
Icelandair
Úr stúkunni síðast þegar Ísland mætti Katar.
Úr stúkunni síðast þegar Ísland mætti Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Felix Sanchez Bas, þjálfari Katar.
Felix Sanchez Bas, þjálfari Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í kvöld mætir Ísland landsliði sem er öðruvísi en nokkuð annað í fótboltaheiminum. Landslið Katar hefur verið í markvissri þróun síðan opinberað væri að þjóðin fengi að halda HM 2022.

Liðið virðist vera á réttri leið en sigurinn gegn Sviss í síðustu viku var fjórði sigur þess í síðustu fimm leikjum,

Allt miðast við að liðið toppi sig á stóra sviðinu eftir fjögur ár og til þess að það gerist hefur gríðarlegum fjárhæðum verið varið. Í Katar breytast olía og gas í peninga.

Þetta verður í annað sinn sem Katar mætir Íslandi, í fyrra heimsóttu strákarnir okkar Mið-Austurlönd og gerðu 1-1 jafntefli í vináttulandsleik. Ég fylgdi landsliðinu og var það áhugaverðasta vinnuferð sem ég hef farið í.

Leitað til Spánar
Katarar hafa leitað í spænska fótboltaþekkingu og fengið fjölmarga Spánverja til starfa. Landsliðsþjálfarinn heitir Felix Sanchez Bas og starfaði áður í barna- og unglingastarfi Barcelona. Hann hefur verið í Katar síðan 2006 og þjálfað öll yngri landslið þjóðarinnar áður en hann tók við A-landsliðinu fyrir ári síðan.

Miðpunkturinn í allri þessari vinnu er hin magnaða Aspire-akademía en ég skrifaði pistil um hana í fyrra og má nálgast hann hér.

Katarar eiga einmitt belgíska úrvalsdeildarfélagið KAS Eupen en það er á heimavelli þess sem leikið verður í kvöld. Eupen var keypt til að gefa leikmönnum úr Aspire akademíunni tækifæri til að komast á evrópskan markað.

Undirbúningur fyrir Asíubikarinn
Landslið Katar er að búa sig undir Asíubikarinn sem fer af stað 5. janúar á nýju ári en allt snýst þó um að liðið toppi sig þegar það verður gestgjafi á HM 2022.

Að Katar, þjóð með enga fótboltahefð og í raun takmarkaðan fótboltaáhuga, hafi fengið HM er með hreinum ólíkindum enda alveg ljóst að brögð voru í tafli. En öllu verður til kostað í landinu til að gera HM eftir fjögur ár að mögnuðu móti.

Það verður haldið um vetrartímann vegna mikils hita í landinu og þá er ótrúlega stutt á milli allra keppnisvalla. Í öðrum pistli sem ég skrifaði í fyrra setti ég fjarlægina milli keppnisvalla í samhengi við það ef Ísland myndi halda HM.

Katar - Ísland fer fram í Eupen í Belgíu, hann hefst klukkan 18:30 og verður í beinni textalýsingu hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner