Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 19. nóvember 2018 23:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Saga De Guzman hjá Napoli - Laminn af yfirmanni
De Guzman var sakaður um uppgerð á meiðslum.
De Guzman var sakaður um uppgerð á meiðslum.
Mynd: Getty Images
Cristiano Giuntoli.
Cristiano Giuntoli.
Mynd: Getty Images
Hollenski miðjumaðurinn Jonathan de Guzman segir að Cristiano Giuntoli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Napoli á Ítalíu, hafi lamið sig á meðan hann var hjá félaginu.

De Guzman gerði fjögurra ára samning við Napoli árið 2014 eftir að hafa verið hjá Swansea árin áður.

Tími De Guzman hjá Napoli var stormasamur. Hann spilaði aðeins eitt tímabil hjá félaginu þar sem hann kom við sögu í 36 leikjum.

Í mars 2015 fann De Guzman fyrir vandamáli í maga sínum og heimsótti hann Alfonso De Nicola, lækni hjá Napoli.

„Ég var settur á sérstakt matarræði, látinn borða minna af kolvetnum og fékk hvíld. En sársaukinn hélt áfram að koma til baka. Allar þær myndatökur og próf sem ég fór í skiptu ekki máli. Rafa (Benitez, þáverandi stjóri Napoli) sagði mér að fara til annars læknis en félagið leyfði mér ekki að gera það," segir De Guzman í ótrúlegu viðtali við hollenska fjölmiðilinn de Volkskrant.

„Þeir héldu ekki að ég ætti í neinum vandræðum. Ég gat gengið, en ég gat ekki skotið boltanum eða tekið snöggan snúning. Þeir héldu að þetta væri uppgerð hjá mér. Það var sagt svo oft við mig að ég fór að efast um minn eigin líkama."

Var laminn í andlitið
Þegar Maurizio Sarri (núverandi stjóri Chelsea) tók við Napoli og Cristiano Giuntoli tók við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu fór Guzman í viðræður við Sunderland og Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. Napoli vildi losa sig við hann sem fyrst.

„Ég vildi fyrst koma mér aftur í líkamlega gott stand en Giuntoli var reiður. Aðstoðarmaður hans sagði mér að hann yrði mjög reiður ef ég myndi ekki fara, að ég myndi deyja í Napoli, að ég myndi ekki fá að spila fyrir félagið."

De Guzman skrifaði ekki undir hjá öðru liði og mætti aftur til Napoli. Þá varð Giuntoli brjálaður.

„Ég var í búningsherberginu og Giuntoli kom inn og sagði, 'hey, mannandskoti, komdu hingað'. Við fórum í annað herbergi. Giuntoli sagði: 'Þú lofaðir að þú myndir fara'. Ég sagði að ég hefði engu lofað," heldur De Guzman fram.

„Hann lamdi mig snögglega í andlitið. Þá brjálaðist ég. Við fórum að slást, stólar duttu. Liðsfélagi minn, Zuniga, kom á milli okkar og sagði mér að fara heim."

Sérfræðingur í Danmörku leysti gátuna
De Guzman, sem var í hollenska landsliðinu sem fékk brons á HM 2014, fékk að lokum að hitta annan lækni. Hann flaug til Danmerkur að hitta sérfræðing.

„Það tók hann 10 mínútur að finna út hvað var að."

De Guzman þurfti að fara í aðgerð en Napoli vildi ekki senda hann í aðgerð. Það var ekki fyrr en eftir að hann var lánaður til Carpi, sem lék þá í ítölsku úrvalsdeildinni, að hann fékk að fara í aðgerð.

„Ég sneri aftur til Napoli árið 2016. Sarri sagði að ég fengi tækifæri til að sanna mig. Hann er góður þjálfari og er að sýna það núna hjá Chelsea."

„Það var allt frábært hjá Napoli fyrir utan nokkra einstaklinga. Fótbolti er viðskipti og viðskipti eru hörð, ég skil það. En þetta var ekki mannúðlegt."

Hinn 31 árs gamli De Guzman segist vilja hætta að hugsa um Napoli. De Guzman er í dag hjá Eintracht Frankfurt í þýsku Bundesligunni.
Athugasemdir
banner
banner