Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 20. nóvember 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Skelfilegt ár hjá Þýskalandi - Gætu fallið í styrkleikaflokk tvö
Vonbrigðin hafa verið mikil hjá Þjóðverjum í ár.
Vonbrigðin hafa verið mikil hjá Þjóðverjum í ár.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Árið 2018 hjá þýska landsliðinu hefur verið martröð líkast. Heimsmeistararnir frá 2014 hafa verið ógnarsterkir undanfarin ár en á þessu ári hefur lítið sem ekkert gengið upp hjá Þjóðverjum.

Þjóðverjar voru taplausir í fimmtán landsleikjum árið 2017 og með markatöluna 43-12. Fáir gátu því séð fyrir eins dapurt gengi á þessu ári og raunin varð.

Þýskaland hefur unnið fjóra leiki á þessu ári, gert þrjú jafntefli og tapað sex. Markatalan er í mínus eða 14-17. Þjóðverjar hafa aldrei áður tapað sex landsleikjum á sama árinu.

Á HM í Rússlandi duttu Þjóðverjar óvænt út í riðlakeppninni eftir töp gegn Mexíkó og Suður-Kóreu. Niðurstaðan varð botnsætið í riðlinum.

Mesut Özil lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM og sakaði forráðamenn þýska knattspyrnusambandsins um kynþáttafordóma eftir mynd sem hann birti af sér með Recep Erdogan, forseta Tyrklands.

Ekki tók betra við í Þjóðadeildinni en Þjóðverjar féllu úr A-deild með tvö stig. Þjóðverjar leiddu 2-0 gegn Hollandi á 85. mínútu í gærkvöldi en fengu síðan á sig tvö mörk og niðurstaðan varð 2-2 jafntefli.

Það þýðir að Þjóðverjar gætu endað í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í undankeppni EM þann 2. desember næstkomandi.

Tvö lið með slakastan árangur í A-deild í Þjóðadeildinni fara í annan styrkleikafokk. Ísland fer þangað og í kvöld skýrist hvort Þýskaland eða Pólland fylgi einnig með í annan styrkleikaflokk. Ef Pólland gerir jafntefli eða vinnur Portúgal í kvöld þá verða Þjóðverjar í öðrum styrkleikaflokki. Árið 2018 gæti því versnað ennþá meira hjá þýska landsliðinu í kvöld.

Hér má sjá ítarlegri grein Sky Sports um martraðarár Þjóðverja
Athugasemdir
banner
banner