banner
   mið 12. desember 2018 17:00
Fótbolti.net
„Nú bara læt ég Alisson barna mig"
Alisson hefur slegið í gegn á Anfield.
Alisson hefur slegið í gegn á Anfield.
Mynd: Getty Images
„Nú bara læt ég Alisson barna mig. Þarf að finna vísindamann. Make it happen!!!" skrifaði Magnús Þór Jónsson á kop.is á Twitter síðu sína þegar Alisson Becker varði frá Arkadiusz Milik framherja Napoli á lokasekúndunum í leik liðanna í Meistaradeildinni í gær. Alisson hefur slegið í gegn hjá Liverpool síðan hann kom til félagsins í sumar og Magnús er svo mikill aðdáandi að hann væri til í að eignast barn með Brasilíumanninum.

„Ég bíð eftir að fá aðstoð. Einhver sagði við mig að ég þyrfti að fá samþykki og ég myndi taka það samtal allan daginn," sagði Magnús Þór léttur um þessa Twitter færslu sína í hlaðvarpsþættinum Miðjunni á Fótbolta.net í dag.

„Það kæmi huggulegt markmannsbarn úr því ef við Alisson myndum rugla saman reitum," sagði Magnús Þór en hann er mikill aðdáandi Alisson. „Ég fer ekkert ofan að því að við erum komnir með okkar Schmeichel í markið."

Alisson kostaði 66 milljónir punda þegar Liverpool keypti hann frá Roma í sumar en Jurgen Klopp sagði eftir leik í gær að hann hefði verið tilbúinn að borga tvöfalt hærri upphæð fyrir hann.

„Ég hef margoft tuðað yfir því að ég skil ekki af hverju markverðir eiga að vera miklu ódýrari en aðrir leikmenn á vellinum. Þetta er ein mikilvægasta staðan," sagði Sigursteinn Brynjólfsson í Miðjunni.

„Gary Neville tók góða nálgun á þetta í Monday night football þar sem hann sýndi fram á hver er munurinn á Liverpool núna og fyrir ári síðan. Það er markvarslan. Hann er með 84% vörslu og er að taka úrslitavörslur. Hann er að hala inn stigum eins og David De Gea hefur verið að gera með Manchester United undanfarin ár."

Smelltu hér til að hlusta á Liverpool umræðu í Miðjunni
Athugasemdir
banner
banner