Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 13. desember 2018 10:23
Magnús Már Einarsson
Arnór Sig: Leikmenn Real tóku ekki einu sinni í höndina á okkur
Arnór fagnar marki sínu í gær.
Arnór fagnar marki sínu í gær.
Mynd: Getty Images
Arnór og Gareth Bale eftir leikinn.  Leikmenn Real Madrid voru ósáttir og strunsuðu inn í klefa.
Arnór og Gareth Bale eftir leikinn. Leikmenn Real Madrid voru ósáttir og strunsuðu inn í klefa.
Mynd: Getty Images
Arnór með boltann í gær.
Arnór með boltann í gær.
Mynd: Getty Images
„Ég held að það sé erfitt að lýsa tilfinningunni. Það var sturlað að fara þangað og vinna 3-0. Það er ekkert lið sem hefur gert það áður. Það að skora og leggja upp var ekki að skemma fyrir," sagði Arnór Sigurðsson, leikmaður CSKA Moskvu, við Fótbolta.net í dag.

Arnór skoraði og lagði upp mark í 3-0 útisigri CSKA gegn Evrópumeisturum Real Madrid í gær. Sextán fjölskyldumeðlimir Arnórs mættu á leikinn og sáu sinn mann eiga stórleik.

„Þetta var planað um leið og það var dregið í riðlana. Maður er ekki að bjóða fólkinu út á leik og spila síðan einhvern skítaleik," sagði Arnór léttur. „Ég hitti þau öll eftir leikinn og það var ómetanlegt að fá þennan stuðning frá þeim."

Pirraðir leikmenn Real Madrid
CSKA vann einnig fyrri leikinn gegn Real Madrid 1-0 og mikill pirringur var hjá stórstjörnum spænska liðsins eftir leikinn í gær.

„Þetta var svipað og í Moskvu. Eftir leikinn þar strunsuðu allir inn í klefa og tóku ekki einu sinni í höndina á okkur. Þeir gerðu það líka í gær og það er svolítið lélegt finnst mér. Þeir steinlágu og eru skiljanlega pirraðir en þetta voru svolitlir stjörnustælar," sagði hinn 19 ára gamli Arnór.

„Isco var að pirra sig á stuðningsmönnum í leiknum og maður sá að það var ekki sama stemning hjá Real Madrid og hefur verið í Meistaradeildinni."

Skrýtin stemning í klefanum
Þrátt fyrir sigurinn endaði CSKA í neðsta sæti riðilsins. Tékkneska liðið Viktoria Plzen vann Roma óvænt í gær og náði þar með sæti í Evrópudeildinni.

„Þetta var skrýtin stemning inni í klefa eftir leikinn. Það voru allir ánægðir með sigurinn en samt svekktir að þetta dugði ekki til," sagði Arnór.

Arnór hefur byrjað fyrstu mánuðina af krafti hjá CSKA og hann er ánægður með byrjunina í Rússlandi.

„Ég hef fengið þvílíkt traust hjá þjálfaranum og náð að nýta það. Ég hef aldrei verið í svona góðu formi áður og maður er að njóta þess að spila fótbolta. Það er langmikilvægast."

Kærkomið jólafrí
Leikmenn CSKA Moskvu fá tæplega mánaðar langt jólafrí og Arnór er ánægður með það. Arnór hafði verið að spila með Norrköping í Svíþjóð áður en hann fór beint í nýtt tímabil með CSKA í haust.

„Ég hef verið að frá því í janúar fyrir utan viku pásu í júní. Maður er orðinn pínu þreyttur og það verður geggjað að fara í frí," sagði Arnór sem ætlar að vera í sólinni á Tenerife í nokkra daga áður en hann kemur til Íslands fyrir jólin.

Sjá einnig:
Sjáðu markið: Arnór skoraði gegn Real Madrid
Arnór „hélt sýningu fyrir alla fjölskylduna"
Einkunnir Real og CSKA: Arnór meðal bestu manna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner