Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 18. desember 2018 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Messi fékk Gullskóinn í fimmta sinn
Mynd: Getty Images
Lionel Messi var markahæstur allra í fimm bestu deildum Evrópu á síðasta tímabili og hlýtur því Gullskóinn í fimmta sinn á ferlinum, sem er met.

Messi skoraði 34 mörk á síðasta tímabili og endaði tveimur mörkum fyrir ofan Mohamed Salah, sem gerði 32 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Cristiano Ronaldo hefur fjórum sinnum verið markahæstur en hann skoraði 26 mörk á síðasta tímabili og var því átta mörkum á eftir Messi.

Messi skoraði mest 50 mörk tímabilið 2011-12 og er markahæstur í helstu deildum Evrópu um þessar mundir með 14 mörk.

Messi er þó ekki bara að skora mörk, en hann lagði 12 upp á síðasta tímabili og er þegar kominn með 10 stoðsendingar á þessu tímabili.

„Ég elska fótbolta en ég bjóst ekki við öllu þessu þegar ég byrjaði að spila. Draumurinn minn var alltaf að vera atvinnumaður," sagði Messi.

„Ég hef lagt inn mikla vinnu til að ná þessum árangri en ég væri ekki hér án liðsfélaganna. Ég er með bestu leikmenn heims í sínum stöðum í kringum mig."

Messi er 31 árs gamall og er markahæsti leikmaður í sögu Barcelona með 572 mörk í 655 leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner