Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 18. janúar 2019 18:11
Elvar Geir Magnússon
Higuain í læknisskoðun í London á morgun
Gonzalo Higuain.
Gonzalo Higuain.
Mynd: Getty Images
Argentínski sóknarmaðurinn Gonzalo Higuain er væntanlegur til London á morgun þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun og ganga frá lausum endum til að verða leikmaður Chelsea.

Higuain er í eigu Juventus og stefnir allt í að hann geri sex mánaða lánssamning við Chelsea. Hann hefur verið á láni hjá AC Milan fyrri helming tímabilsins.

Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, þekkir Higuain vel en hann var stjóri Napoli þegar Argentínumaðurinn skoraði 36 mörk fyrir félagið í ítölsku A-deildinni fyrir tveimur árum.

Möguleiki er á að hann 31 árs Higuain spili líka með Chelsea á næsta tímabili, ef næstu mánuðir verða vel heppnaðir.

Sarri sagði stjórn Chelsea fyrr í þessum mánuði að Higuain væri efstur á óskalista sínum til að styrkja sóknarleikinn.

Þá vonast Sarri til að fá miðjumann til að fylla skarð Cesc Fabregas sem gekk í raðir Mónakó í Frakklandi. Nicolo Barella hjá Cagliari og Leandro Paredes hjá Zenit í Pétursborg hafa verið orðaðir við bláliða.

Guardian segir að stjórnarmenn Chelsea séu ekki sannfærðir um að þörf sé á fleiri miðjumönnum. Liðið er með menn eins og Ross Barkley og Ruben Loftus-Cheek sem ekki eiga fast sæti í byrjunarliðinu og þá gæti Mateo Kovacic, sem er á láni frá Real Madrid, komið alfarið í sumar. Þá eru efnilegir miðjumenn í unglingaliði félagsins.

Vonast er til að Higuain verði mættur og geti spilað gegn Tottenham í undanúrslitum deildabikarsins á fimmtudaginn næsta.

Koma hans ætti að verða til þess að Alvaro Morata fari til Atletico Madrid en hann var á sínum tíma í unglingastarfi félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner