fös 18. janúar 2019 22:13
Brynjar Ingi Erluson
Dagný Brynjarsdóttir á leið aftur til Portland Thorns
Dagný í baráttunni með íslenska landsliðinu
Dagný í baráttunni með íslenska landsliðinu
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir er á leið aftur til bandaríska félagsins Portland Thorns og mun leika með liðinu á komandi tímabili en þetta kemur fram í Oregon Live í dag.

Dagný er fædd árið 1991 og hefur verið ein fremsta knattspyrnukona landsins síðustu ár en hún lék með Portland Thorns tímabilið 2017-2018 þar sem hún lék 31 leik, skoraði 5 mörk og lagði upp önnur 2.

Hún var ekkert með Portland á síðasta ári þar sem hún varð ófrísk en er nú klár í slaginn og mun spila með Portland á komandi tímabili í Bandaríkjunum.

Dagný hefur gert góða hluti erlendis á ferlinum en hún spilaði með Flórida háskólanum þar sem hún varð ACC-meistari tvö ár í röð og var hún í miklum metum þar.

Þá hefur hún spilað fyrir þýska stórveldið Bayern München en hér heima spilaði hún með Val og Selfoss.

Hún á þá 76 landsleiki að baki með A-landsliði Íslands og hefur hún skorað 22 mörk í þeim leikjum. Þá hefur hún þrisvar farið á Evrópumót landsliða.
Athugasemdir
banner
banner
banner