mán 21. janúar 2019 10:18
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Menn klóra sér í hausnum í Tyrklandi - Fenerbahce í fallsæti
Illa gengur hjá Fenerbahce.
Illa gengur hjá Fenerbahce.
Mynd: Getty Images
Mynd: The Sun
Það er krísuástand hjá einu stærsta og sigursælasta félagi Tyrklands. Fenerbahce, sem gerði sig gildandi í Evrópukeppnum á árum áður, er skyndilega í fallsæti. Nítján sinnum hefur liðið orðið Tyrklandsmeistari og aldrei í sögunni hefur það fallið.

„Þetta er það sem allir eru að tala um í Tyrklandi. Titilbaráttan fellur í skuggann. Spurningin er: Mun Fenerbahce halda sér uppi?" segir tyrkneski fótboltasérfræðingurinn Bagis Erten við BBC.

En hver er ástæðan fyrir þessu slaka gengi? Fenerbahce hefur verið frægt fyrir að vera með öfluga erlenda leikmenn í sínum röðum. Jay-Jay Okocha, Pierre van Hooijdonk, Alex, Nicolas Anelka, Roberto Carlos, Dirk Kuyt, Nani og Robin van Persie eru meðal leikmanna sem hafa spilað með liðinu.

En meðal núverandi leikmanna eru Martin Skrtel, Roberto Soldado, Andre Ayew, Islam Slimani og Mathieu Valbuena.

„Þetta er veikasti leikmannahópur félagsins í 20 ár. Gæðin eru slök. Erlendu leikmennirnir eru meðalleikmenn og heimamennirnir gamlir. Þessi samsetning er ekki að virka," segir Erten sem telur að allir þjálfarar yrðu í vandræðum með þennan leikmannahóp.

Hollendingurinn Phillip Cocu, sem vann þrjá deildartitla með PSV Eindhoven, var rekinn í október eftir aðeins fjóra mánuði í starfi. Fyrrum þjálfari liðsins, Ersun Yanal, var ráðinn aftur.

Eftir 3-0 tap gegn Akhisarspor í desember ákvað forseti félagsins, Ali Koc, að aflýsa flugi leikmanna heim. Þeir voru settir í fimm tíma rútuferð til baka.

Fjárhagsreglur FIFA setja einnig stein í veg Fenerbahce og félagið getur ekki eytt eins og það er vant að gera. Hömlur FIFA gera það að verkum að Koc hefur talað um að brjóta reglurnar vísvitandi og fórna þar með þátttöku í Evrópukeppnum fyrir árangur heima fyrir í Tyrklandi.

Þrátt fyrir vonda stöðu er bjartsýni hjá Fenerbahce um að Yanal geti snúið stöðunni við. Sjálfur hefur hann talað um að markmið sitt sé að stýra liðinu til 20. meistaratitilsins í Tyrklandi en það myndi færa félaginu fjórðu stjörnuna á treyjuna.

Þrátt fyrir vandræðin heima fyrir er Fenerbahce enn með í Evrópudeildinni og spilar gegn Zenit frá Pétursborg í næstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner