Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 21. janúar 2019 16:38
Magnús Már Einarsson
Ari Freyr: Ekki viss um að ég komi aftur til Íslands
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta tímabil er búið að vera algjör hörmung. Það hefur allt legið niður á við og það hefur verið mjög erfitt í klúbbnum," sagði Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður Lokeren, við Fótbolta.net í dag.

Lokeren er í neðsta sæti í belgísku úrvalsdeildinni með fjórtán stig eftir 4-1 tap gegn Eupen um helgina. Liðið er sex stigum frá öruggu sæti en Trond Sollied þjálfari og Arnar Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari, voru í gær reknir úr starfi.

„Þetta er búið að vera mjög sérstök tvö ár síðan að Rúnar (Kristinsson) hætti," sagði Ari við Fótbolta.net í dag.

„Það er sérstaklega leiðinlegt að missa Arnar. Hann er yndislegur maður og góður þjálfari. Hann er síðasta andlitið sem var eftir sem var alltaf brosandi og tilbúinn að hjálpa."

„Það eru átta leikir eftir og við erum sex stigum á eftir næsta liði. Þetta er bara erfitt. Við eigum mjög mikilvægan leik á móti Zulte Waregem á laugardaginn. Þeir eru með tuttugu stig og ef við náum þremur stigum þar þá er þetta allt opið aftur."


Hefur ekki rætt við Val
Hinn 31 árs gamli Ari verður samningslaus í sumar og gæti þá farið frítt í annað lið.

„Maður er byrjaður að skoða. Ég er ekki að fara neitt núna. Ef við föllum þá er tímabilið búið 17. mars. Þá er ekkert í boði fyrir okkur lengur. Þá kemur í ljós hvað maður gerir."

Ari Freyr er uppalinn í Val. Gæti hann snúið aftur heim til Íslands og gengið til liðs við Íslandsmeistarana?

„Ég hef ekkert rætt við Val. Ég er búinn að búa erlendis í sextán ár af 31 svo ég er ekki viss um að ég komi aftur til Íslands, ég er orðinn svo mikill útlendingur. Maður lokar engum dyrum en fjölskyldunni líður vel í Belgíu. Við sjáum hvað gerist í sumar, Ég ætla fyrst að klára tímabilið hérna og vonandi náum við að klóra í bakkann og halda okkur uppi. Við sjáum svo hvað gerist," sagði Ari að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner