Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 22. janúar 2019 14:34
Elvar Geir Magnússon
Þorsteinn Gunnarsson býður sig fram í stjórn KSÍ
Þorsteinn Gunnarsson.
Þorsteinn Gunnarsson.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Raggi Óla
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Mývatnssveit, býður sig fram í stjórn KSÍ. Kosning verður á ársþingi KSÍ þann 9. febrúar.

Þorsteinn hefur lengi verið tengdur í fótboltann úr ýmsum áttum, meðal annars sem íþróttafréttamaður, þjálfari og stjórnarmaður.

Það er fróðlegt ársþing framundan en Guðni Bergsson formaður KSÍ fékk mótframboð frá heiðursformanninum Geir Þorsteinssyni. Ekki hafa fleiri framboð til formanns verið staðfest.

Sjá einnig:
Miklar breytingar á stjórn KSÍ - varaformaðurinn hættir

Tilkynning Þorsteins:

Framboð til stjórnar KSÍ

Kæru vinir. Ég hef ákveðið að bjóða fram starfskrafta mína í stjórn KSÍ á 73. ársþingi sambandsins 9. febrúar n.k. Íslensk knattspyrna hefur verið mín ástríða alla ævi og þar hef ég langa reynslu af ýmsum störfum innan hreyfingarinnar.

Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum en bjó lengi í Grindavík og starfa nú í Mývatnssveit sem sveitarstjóri. Ég hef starfað í grasrótinni og upp í meistaraflokk sem sjálfboðaliði, leikmaður ÍBV, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, þjálfari yngri flokka og meistaraflokka karla og kvenna ásamt markmannsþjálfun og er með UEFA B gráðu, foreldri þriggja barna í fótbolta, stuðningsmaður félagsliða og þekki því vel af eigin reynslu hve mikilvæg vinna fer fram í grasrótinni. Stuðningsmaður landsliðanna okkar. Ég kom að stofnun ÍTF á sínum tíma. Ég starfaði sem íþróttafréttamaður í tæpan áratug og var formaður Samtaka íþróttafréttamanna. Síðustu árin hef ég starfað á vettvangi sveitarstjórnarmála m.a. sem sviðsstjóri og sveitarstjóri og þekki því uppbyggingu íþróttamannvirkja og mikilvægi samtals sveitarfélaga og íþróttahreyfingar þegar kemur að barna- og unglingastarfi og afreksstarfi.

Ég hef því setið víða í kringum borðið, hef breiða þekkingu úr grasrótinni og rekstri félaga og stjórnun sem mun nýtast í hinum mörgu verkefnum sem knattspyrnuhreyfingin þarf að vinna að. Knattspyrna er mitt hjartans mál og ég hef bæði vilja og metnað til að leggja mitt af mörkum. Ég lít á KSÍ sem þjónustuaðila fyrir knattspyrnufélögin í landinu, mikilvægt er að styrkja fagmennsku og ímynd sambandsins, að rekstur þess verði áfram traustur og meiri kraftur verði lagður í samtal við grasrótina.
Ég er með fjölmiðlafræðimenntun í grunninn, meistarapróf í verkefnisstjórnun (MPM) frá HR, diploma í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og er í MPA námi í opinberri stjórnsýslu.

Gildin mín: Gegnsæi, jafnræði og vinnusemi.
Markmið: Að leggja mitt af mörkum til að tryggja knattspyrnufélögum í landinu sem best starfsumhverfi hverju sinni og stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir iðkendur og áhorfendur.

Framtíðarsýn: Að félögin í landinu og KSÍ eigi í farsælu samstarfi með hagsmuni knattspyrnunnar í landinu að leiðarljósi.

Með fótboltakveðju
Þorsteinn Gunnarsson


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner