Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 30. janúar 2019 13:35
Fótbolti.net
Geir reiður út í Ceferin: Dæmigert hjá Austur-Evrópumanninum
Guðni forviða á ummælum Geirs
Geir Þorsteinsson er ósáttur við ummæli Ceferin.
Geir Þorsteinsson er ósáttur við ummæli Ceferin.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aleksander Ceferin forseti UEFA.
Aleksander Ceferin forseti UEFA.
Mynd: Getty Images
Geir Þorsteinsson er afar ósáttur við viðtal sem Aleksander Ceferin, formaður UEFA, var í á Vísi í dag. Ceferin talar þar fallega um Guðna Bergsson, formann KSÍ, en Geir og Guðni eru í formannslag á ársþingi KSÍ þann 9. febrúar næstkomandi.

„Þetta eru freklegt afskipti af knattspyrnumálefnum á Íslandi og það er dæmigert hjá Austur-Evrópumanninum að gera þetta," sagði Geir reiður í Miðjunni á Fótbolta.net í dag. Hann telur að Ceferin brjóti siðareglur sem forseti UEFA með afskiptum sínum.

„Má segja að þetta sé skandall"
Geir var formaður KSÍ þegar hinn slóvenski Ceferin var kjörinn forseti UEFA árið 2016. Hann hafði betur í baráttu við hinn hollenska Michael van Praag.

„Við ræddum það í stjórn Knattspyrnusambandsins hvern við ættum að styðja. Hollendingurinn Van Praag og Ceferin buðu sig fram. Við í stjórn KSÍ ákváðum að styðja Michael van Praag og gerðum það alla leið. Slóveninn vann kosninguna með 44 atkvæðum minnir mig af 55. Við tjáðum honum það að við myndum styðja Michael van Praag og hann var fúll. Ég fann það alveg. Hann vildi örugglega fá öll 55 atkvæðin þannig að lýðræðið myndi ekki virka í knattspyrnuhreyfingunni."

„Svona getur formaður UEFA ekki unnið og það má segja að þetta sé skandall. Hann fer langt út fyrir siðareglur og sitt umboð og vald. Þetta er dálítið í takt við það hvernig menn hafa stjórnað málum í Austur-Evrópu og ég er mjög ósáttur við þetta."

„Ég er ekki að taka þátt í UEFA eða FIFA fyrir íslenska knattspyrnu til að koma sjálfum mér á framfæri. Ég er að vinna að ákveðnum sjónarmiðum og er alltaf tilbúinn að tjá mig um þau. Ég hef bent þessum stóru innan evrópskrar knattspyrnu að litlu þjóðirnar leika stórt hlutverk og eiga að fá meira af þeim stóru tekjum sem streyma inn á hverju ári."


Guðni segir ummælin ósmekkleg
Guðni fordæmir ummæli sem Geir lét falla um Austur-Evrópu.

„Ég er forviða á að Geir tali niður til Austur-Evrópubúa og Austur-Evrópu í heild sinni með því að tala um að þetta sé dæmigert. Mér finnst þetta vera mjög ósmekklegt," sagði Guðni en Geir svaraði síðar í þættinum fyrir sig.

„Mér er annt um alla íbúa jarðarinnar. Ég er bara að segja að þessi vinnubrögð hafa tíðkast í Austur-Evrópu en það hafa orðið miklar framfarir þar. Ég þekki þetta vel, ég hef starfað lengur inn í knattspyrnuhreyfingunni," sagði Geir.

„Þetta nær lengra aftur með Ceferin. Þegar verið var að vinna í undirbúningi hans áttu Norðurlöndin að vera fyrst til að lýsa yfir stuðningi við hann. Ég neitaði því og Færeyjar. Bæði samtökin neituðu þessu og vildu þetta ekki. Hann átti að vera mjög góður og lýðræðislegur kandídat en það sem hann er að stunda núna lýsir ekki lýðræðislegum vinnubrögðum," bætti Geir við.

Guðni bað ekki um stuðning Ceferin
Sjálfur segist Guðni ekki hafa óskað eftir að fá stuðningsyfirlýsingu frá Ceferin.

„Ég gerði það ekki. Okkur hefur auðvitað komið mjög vel saman og hann bað mig um að taka sæti í aganefnd FIFA sem ég gerði. Ég var í stefnumótunarnefnd hjá UEFA sem var að fara í fyrsta skipti í stefnumótun. Ég veit að hann hefur góðar mætur á mér og hefur sýnt mér stuðning í hreyfingunni. Ég var reyndar ekki búinn að sjá þessa frétt en það er gott ef hann hefur góðar mætur á mér. Þetta er kannski ekki opinber stuðingur en þetta eru góð orð og það er jákvætt," sagði Guðni.

Smelltu hér til að hlusta á Miðjuna - Guðni vs Geir



Athugasemdir
banner
banner
banner