mán 11. febrúar 2019 18:43
Ívan Guðjón Baldursson
Marco Reus ekki með gegn Tottenham
Mynd: Getty Images
Tottenham tekur á móti Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið og eru bæði félög að glíma við meiðslavandræði fyrir viðureignina.

Harry Kane, Dele Alli, Eric Dier og Ben Davies eru meðal þeirra sem missa af leiknum í liði heimamanna en Marco Reus verður ekki með í liði Dortmund. Reus er einn besti leikmaður Dortmund og fyrirliði, en Jadon Sancho mun líklegast byrja inná í hans stað.

Reus meiddist smávægilega í fjörugum bikarleik gegn Werder Bremen og missti af skrautlegu 3-3 jafntefli gegn Hoffenheim um helgina.

Auk Reus eru varnarmennirnir Manuel Akanji og Lukasz Piszczek tæpir í liði Dortmund. Piszczek er varafyrirliði og missti af bikarleiknum gegn Bremen. Erik Lamela og Vincent Janssen verða heldur ekki með Tottenham.

Reus er búinn að skora 17 mörk í 27 leikjum á tímabilinu og hefur hans verið sárt saknað þar sem Dortmund hefur mistekist að vinna síðustu þrjá leiki sína í röð. Tottenham hefur aftur á móti verið að ná góðum úrslitum án sinna lykilmanna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner