banner
   þri 12. febrúar 2019 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin í dag - Risaslagur á Trafford
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Biðin er loks á enda, útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar hefst í kvöld.

Þar eru tveir gífurlega spennandi leikir á dagskrá, þar sem Manchester United tekur á móti Paris Saint-Germain í risaslag.

Rauðu djöflarnir hafa risið upp frá dauðum eftir komu Ole Gunnar Solskjær í desember og hefur stuðullinn á sigri þeirra snarlækkað undanfarna mánuði.

Það bætir ekki úr skák fyrir PSG að Edinson Cavani og Thomas Meunier eru frá vegna meiðsla auk Neymar og þá gæti Marco Verratti einnig misst af leiknum.

Man Utd er ekki að glíma við alvarleg meiðslavandræði og getur Solskjær teflt fram geysisterku liði, en Marcus Rashford var hvíldur um helgina og Paul Pogba tekinn útaf eftir að hafa skorað tvö.

PSG hefur heldur ekki verið að ganga sérlega vel uppá síðkastið. Liðið tapaði fyrsta deildarleiknum sínum á leiktíðinni í byrjun febrúar og þurfti framlengingu gegn C-deildarliði Villefranche í bikarnum þremur dögum síðar.

Roma tekur þá á móti Porto í álíka spennandi leik. Porto hefur átt nánast fullkomið tímabil, liðið rúllaði upp riðlinum sínum í Meistaradeildinni og er á toppi portúgölsku deildarinnar þrátt fyrir að hafa gert jafntefli í tveimur síðustu leikjum sínum.

Roma er aftur á móti ekki búið að eiga gott tímabil þar sem frammistöður liðsins virðast handahófskenndar. Liðið komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrra en seldi sína bestu menn og er núna í harðri baráttu um síðasta Meistaradeildarsætið.

Roma datt úr ítalska bikarnum eftir 7-1 tap gegn Fiorentina í lok janúar og vill hópur stuðningsmanna sjá Eusebio Di Francesco fjúka úr stjórastólnum.

Leikir kvöldsins:
20:00 Roma - Porto (Stöð 2 Sport)
20:00 Man Utd - PSG (Stöð 2 Sport 2)
Athugasemdir
banner
banner
banner