Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   þri 12. febrúar 2019 17:30
Magnús Már Einarsson
Skrautlegur tími hjá Wimbledon - Slagsmál og prakkarastrik
Hartson slóst við andstæðing fyrir leik
Hemmi Hreiðars í baráttu við Lee Hendrie í leik með Wimbledon á sínum tíma.
Hemmi Hreiðars í baráttu við Lee Hendrie í leik með Wimbledon á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
John Hartson kallar ekki allt ömmu sína.
John Hartson kallar ekki allt ömmu sína.
Mynd: Getty Images
Hermann Hreiðarsson er gestur vikunnar í hlaðvarpsþættinum Miðjunni á Fótbolta.net en hann kom þar með skemmtilegar sögur af fimmtán ára ferli sínum í enska boltanum.

Hermann spilaði meðal annars með Wimbledon tímabilið 1999/2000. Wimbledon gekk undir gælunafninu „Crazy gang" á sínum tíma en þar innanborðs voru miklir harðjaxlar.

„Menn voru eiginlega að leita sér að ástæðum til að fara í slagsmál hjá Wimbledon," sagði Hermann sem kom með góða sögu úr útileik gegn Bradford í ensku úrvalsdeildinni.

„John Hartson, sá skapbráði leikmaður, var fyrirliði liðsins. Hann var frábær leikmaður og það var varla til betri target senter en hann," sagði Hemmi.

„Við vorum allir komnir fram á gang fyrir þennan leik. Þetta var lítill og mjög þröngur gangur og það var varla pláss fyrir fjóra þar, hvað þá tvö fótboltalið. Við vorum búnir að bíða í tvær mínútur og Hartson var að brjálast. 'Af hverju í andskotanum erum við að bíða eftir Bradford? Af hverju drulla þeir sér ekki út?"

„Okkar maður á að leiða liðið út en hann er kominn aftast. Hann sparkar upp hurðinni í klefanum hjá Bradford og segir þeim að hunskast út."

„Þar var annar gamall jaxl, Stuart McCall. Hann tekur á móti og þeir voru farnir í slag fyrir leik. Maður hugsaði að John væri klár í eitthvað fjör í dag. Það versta var að hann var full klár. Hann var rekinn út af eftir korter og við skíttöpuðum,"
sagði Hemmi og hló.

Kveikt í fötunum og skórnir í klósettið
Í leikmannahópi Wimbledon var hefð fyrir því að vera með hrekki í búningsklefanum. Hermann fékk að finna fyrir prakkarastrikum leikmanna liðsins strax fyrsta daginn hjá Wimbledon en hann mætti þá inn í klefa eftir að hafa verið úti á velli í alls konar skoðunum fyrir félagaskiptin.

„Þegar maður kom aftur inn í klefa var búið að kveikja í fötunum og setja skóna manns ofan í klósettið. Tónninn var gefinn og það þýddi ekkert að mjálma og væla þarna. Það var vel tekið á því á æfingu og menn spörkuðu vel í hvorn annan. Menn vissu líka að menn myndu gera það sama fyrir hvorn annan í næsta leik," sagði Hemmi.

Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum
Athugasemdir
banner
banner