Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 13. febrúar 2019 11:00
Fótbolti.net
Hemmi Hreiðars: KSÍ sparaði pening og minnkaði möguleika á árangri
Hermann í landsleik á sínum tíma.
Hermann í landsleik á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Hemmi í stúkunni á leik á EM í Frakklandi.
Hemmi í stúkunni á leik á EM í Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum nálægt því en maður veit hvað vantaði upp á. Það er búið að sanna það," sagði Hermann Hreiðarsson, fyrrum landsliðsfyrirliði í Miðjunni, aðspurður út í þann herslumun sem vantaði í að íslenska landsliðið færi á stórmót á þeim tíma sem hann spilaði með liðinu.

Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum

Ísland var meðal annars nálægt því að fara á EM 2000 og EM 2004 á meðan Hermann spilaði með liðinu. Ísland komst í fyrsta skipti á stórmót árið 2016 undir stjórn Lars Lagerback og Heimis Hallgrímssonar.

„Með Lars og Heimi breyttist landslagið professionally. Þeir fengu KSÍ með í að gera allt eins og önnur lið," sagði Hemmi í Miðjunni.

„Þegar ég var í þessu þá var leikur á laugardegi og við vorum að mæta á miðvikudegi. Það skildi þetta enginn úti á Englandi. Eftir leik þar á laugardegi var ég mættur á æfingu á mánudegi. Menn spurðu, 'bíddu áttu þú ekki að vera mættur í landsleik?' Þá voru allir hinir landsliðsmennirnir farnir í leik en við vorum áfram hjá okkar klúbbum fram á miðvikudag. Þar var KSÍ að spara pening, stytta undirbúninginn og minnka möguleika á að ná árangri. Það eru mörg utanaðkomandi áhrif og þetta var risaatriði. Það var einn þjálfari þá og einn markmannsþjálfari en núna er þetta risa batterí eins og hjá öðrum. Að sjálfsögðu eru meiri möguleikar og þá verður allt betra."

Bjartsýnn á að Ísland fari á EM 2020
Ísland fór á EM 2016 og HM 2018 og Hermann er bjartsýnn á að landsliðið fari einnig á EM 2020 en undankeppnin þar hefst í mars.„Ég tel góðar líkur á því. Eins og liðið hefur þróast þá hefur maður fulla trú á því miðað við stöðugleikann og gæðin í liðinu," sagði Hemmi.

Hermann mætti sjálfur í stúkuna á EM 2016 og HM 2018. Þegar Ísland fékk vítapyrnu í leik gegn Nígeríu í sumar sást Hermann fagna af miklum krafti í stúkunni en sólgleraugu hans fóru meðal annars illa í þeim látum.

„Þetta er það sem maður hefur í fótbolta. Þetta var mitt einkenni. Ég spilaði mikið með hjartanu. Það er það sem er svo skemmtilegt við fótbolta," sagði Hermann léttur aðspurður út í fagnaðarlæti sín í stúkunni leiknum í Volgograd í sumar.




Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum
Athugasemdir
banner
banner