þri 19. febrúar 2019 18:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kristján Flóki ekki til Arka Gdynia - Féll á læknisskoðun
Kristján Flóki meiddist í síðasta landsliðsverkefni sem var í Katar í janúar.
Kristján Flóki meiddist í síðasta landsliðsverkefni sem var í Katar í janúar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Íslenski framherjinn Kristján Flóki Finnbogason var við það að ganga til liðs við pólska úrvalsdeildarfélagið Arka Gdynia, en hann féll á læknisskoðun.

Hann var búinn að ná samkomulagi við pólska félagið, en það verður ekkert úr félagaskiptunum. Morgunblaðið greinir frá.

„Ég er bú­inn að vera að glíma við ökkla­meiðsli síðan í landsliðsverk­efn­inu í janú­ar síðastliðinn og þeir voru ekki til­bún­ir að taka séns­inn á því," sagði Kristján Flóki við mbl.is. „Þeir eru á miðju tíma­bili og leist ekki á út­litið á ökkl­an­um mín­um."

„Þetta hefði verið frá­bært tæki­færi fyr­ir mig, en ég finn eitt­hvað annað í staðinn."

Kristján, sem er fæddur árið 1995, er uppalinn í FH en árið 2013 samdi hann við danska stórliðið FCK.

Hann hélt aftur heim í FH eftir dvöl sína þar og stóð sig afar vel sem varð til þess að hann landaði samning hjá norska liðinu Start. Hann var í fyrra á láni hjá Brommapojkarna í Svíþjóð.

Kristján, sem á fjóra A-landsleiki, er enn samningsbundinn Start í Noregi. Hann segist þurfa að taka samtal með þjálfaranum þar og komast að niðurstöðu um framtíðina.

Arka Gdynia er í ellefta sæti deildarinnar með 25 stig en átta leikir eru eftir af tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner