banner
   sun 17. mars 2019 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Rabiot: Ég var vonsvikinn eftir tapið gegn United
Mynd: Getty Images
Adrien Rabiot hefur verið settur í agabann hjá PSG vegna þess að hann fór út að skemmta sér eftir 1-3 tap liðsins gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Rabiot hefur ekki spilað fyrir félagið síðan í desember vegna deilna um samningsmál. Hann ætlar að leyfa samningnum að renna út til að geta skipt um félag á frjálsri sölu næsta sumar.

„Ég get ekki samþykkt þessa hegðun hjá Adrien Rabiot gagnvart félaginu, liðsfélögum hans og stuðningsmönnum. Það má ekki gleymast að hann er partur af liðinu þar til 30. júní 2019," sagði Antero Henrique, yfirmaður íþróttamála hjá PSG.

Rabiot ákvað að tjá sig um málið í samtali við InfoSport í gær.

„Auðvitað hefur verið erfitt að vera ekki í liðinu síðustu þrjá mánuði. Ég hef verið að æfa stíft, er í góðu formi og myndi spila ef ég fengi tækifæri. Þetta eru ekki aðstæður sem ég valdi mér," sagði Rabiot.

„Þrátt fyrir allt sem hefur verið sagt er ég ennþá leikmaður PSG, ég er samningsbundinn og ber virðingu fyrir liðsfélögunum. Ég var vonsvikinn þegar við töpuðum gegn United, eins og ég hef verið í hvert sinn sem við erum slegnir út."

Barcelona er líklegasti áfangastaður Rabiot sem hefur einnig verið orðaður við öll helstu félög ensku úrvalsdeildarinnar.

Rabiot er 23 ára miðjumaður sem á 227 leiki að baki fyrir PSG. Hann á 53 leiki fyrir yngri landslið Frakka og 6 fyrir A-landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner