mán 18. mars 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Tómas Þór: Faglegt val að velja Ögmund í byrjunarliðið
Icelandair
Hannes Þór er markvörður númer eitt.
Hannes Þór er markvörður númer eitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur Kristinsson spilar allar mínútur með Larissa í grísku úrvalsdeildinni.
Ögmundur Kristinsson spilar allar mínútur með Larissa í grísku úrvalsdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex er einn af þremur markvörðum landsliðsins.
Rúnar Alex er einn af þremur markvörðum landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elvar Geir og Tómas Þór ræddu um íslenska landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977. Þar var markvarðarstaðan til umræðu en á fréttamannafundi landsliðsins þegar Erik Hamrén tilkynnti hópinn þá var hann spurður út í Hannes Þór Halldórsson.

Þar sagði Hamrén að Hannes Þór væri markvörður númer eitt í landsliðinu.

Rosalega sérstakt að segja þetta
„Það fannst mér rosalega sérstakt. Ef ég væri að setja upp byrjunarlið gegn Andorra, ég myndi mjög líklega setja Hannes í markið. En við skulum átta okkur á stöðunni sem markverðirnir eru í," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum á laugardaginn og hélt svo áfram.

„Hannes Þór Halldórsson hefur ekki spilað leik síðan lok nóvember. Hann datt útúr byrjunarliðinu og situr á bekknum hjá Qarabag."

„Rúnar Alex Rúnarsson missti stöðuna sína hjá Dijon eftir að hafa fengið kvef. Hann sat á bekknum einhverja tíu deildarleiki í röð. Spilaði aftur á móti einhverja 3-4 bikarleiki og kom aftur inn í byrjunarliðið fyrir viku síðan í leiknum gegn PSG. Hefur fengið sjö mörk á sig í síðustu tveimur leikjum á móti PSG. Stóð sig hinsvegar víst vel í bikarleiknum gegn PSG þrátt fyrir 3-0 tap. Engu að síður er hann búinn að vera í basli og missti stöðuna sína í markinu," sagði Tómas Þór sem næst talaði um þriðja markvörðinn í landsliðshópnum, Ögmund Kristinsson sem hefur spilað allar mínútur með Larissa í grísku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ef við vitnum í tengdaföður Ögmundar Kristinssonar þá væri faglegt val að setja hann í byrjunarliðið. Miðað við gæði fótboltans og fjöldi spilaðra mínútna. Hann er búinn að spila hverja einustu mínútu í öllum 24 umferðunum í grísku úrvalsdeildinni. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig hann hefur verið að standa sig, liðið er við botninn. Það getur vel verið að hann sé að fá á sig sprellimörk."

„Hann er þó í mestu leikæfingunni og er að spila á ansi góðu leveli. Gríska deildin er klárlega betri en sú sem Hannes er í. En Hannes er alltaf að fara byrja, augljóslega. En til hvers að segja þetta?," spyr Tómas Þór sjálfan sig.

Nú er enginn Heimir og Lars
„Þegar staðan á markvörðunum er svona og ég hef sjaldan hitt mann, hvað þá ungan mann með jafn mikið sjálfstraust og Rúnar Alex. Rúnar segist alltaf ætla taka þetta sæti af Hannesi sem er bara flott. Það heldur Hannesi á tánum og heldur sjálfum sér á tánum. Ögmundur Kristinsson getur ekki annað en verið að hugsa í aðdraganda þessa verkefnis að nú sé komin ný keppni og þessir gæjar hafa ekki unnið fótboltaleik síðan 2017."

„Nú eru nýir þjálfarar og nú gæti verið séns fyrir sig. Nú er enginn Heimir og þetta er ekki Lars, þetta er Erik Hamren. Þannig Ögmundur gæti komið inn, Rúnar gæti komið inn og þeir gætu hugsað sér, nú ætlum við að ýta Hannesi útúr þessu. Hann situr á spýtunni hjá félagsliðinu, hann hefur verið að tapa leikjum, og hann er orðaður við Pepsi-deildina."

„Miðað við þá stöðu sem markverðirnir eru í núna, þá hefði mér þótt eðlilegt að þjálfarnir myndu búa til einhverja stöðu til að halda öllum á tánum. Ég skil ekki afhverju hann sagði að Hannes væri númer eitt," sagði Tómas Þór að lokum.

Landsliðsumræðuna í útvarpsþættinum má hlusta á hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner