þri 26. mars 2019 10:51
Ívan Guðjón Baldursson
Deschamps: Þeir voru orðnir þreyttir í síðari hálfleik
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Íslandi í gær. Heimsmeistararnir fóru létt með íslenska landsliðið og unnu auðveldan 4-0 sigur, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa unnið Moldavíu 1-4 í fyrstu umferð.

„Við mættum erfiðari andstæðingum en í Moldavíu og spiluðum virkilega vel. Allir sóknarmennirnir komust á blað og leikmenn nutu sín í botn. Leikvangurinn var fullur og það var frábær stemning á pöllunum, það skipti gífurlega miklu máli," sagði Deschamps eftir sigurinn.

„Ísland spilaði mjög varnarsinnað allan leikinn og það var ekki auðvelt að finna glufur á vörninni en strákunum tókst það trekk í trekk. Vörnin opnaðist svo í síðari hálfleik þegar þeir voru orðnir þreyttir."

Næstu umferðir undankeppni EM fara fram í júní og eiga Frakkar tvo útivallarleiki framundan. Fyrst heimsækja þeir Tyrki 8. júní og svo nágranna sína í Andorra þremur dögum síðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner