þri 26. mars 2019 11:29
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo fór meiddur af velli: Verð klár eftir 1-2 vikur
Mynd: Getty Images
Cristiano Ronaldo fór meiddur af velli er Portúgal gerði 1-1 jafntefli við Serbíu í undankeppni fyrir EM 2020. Ronaldo var að spretta upp kantinn þegar hann fann fyrir sársauka og bað strax um skiptingu.

Ronaldo er 34 ára og í ótrúlegu líkamsástandi miðað við aldur. Meiðslin litu ekki vel út en hann segist þekkja sinn eigin líkama og er viss um að vera klár í slaginn eftir eina til tvær vikur. Þetta sagði hann í viðtali eftir leikinn.

Næstu þrír leikir Juventus eru gegn Empoli, Cagliari og Milan í ítalska boltanum en svo er útileikur á dagskrá í Meistaradeildinni 10. apríl. Hann er gegn fjörugu liði Ajax, sem sló ríkjandi meistara Real Madrid úr keppni í síðustu umferð.

„Ég hef ekki áhyggjur af þessum meiðslum. Ég þekki líkama minn og verð klár í slaginn eftir eina eða tvær vikur," sagði Ronaldo og róaði marga stuðningsmenn Juventus niður.

Það sem stuðningsmenn Juve ættu þó helst að horfa til er meiðslasaga Ronaldo, sem hefur alltaf náð sér af öllum meiðslum á mettímum. Gott dæmi er þegar hann meiddist á ökkla fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra en náði sér svo á einni viku.
Athugasemdir
banner
banner