þri 26. mars 2019 12:35
Ívan Guðjón Baldursson
UEFA gefur út ákæru vegna kynþáttaníðs Svartfellinga
Mynd: Getty Images
Evrópska knattspyrnusambandið er búið að gefa út ákæru gegn Svartfellingum vegna hegðunar stuðningsmanna þeirra í 1-5 tapi gegn Englandi í gærkvöldi.

Heyra mátti apahljóð á nokkrum köflum í leiknum en aldrei jafn augljóslega og í uppbótartíma seinni hálfleiks, þegar þeim var beint að Danny Rose eftir að hann fékk gult spjald.

UEFA er búið að ákæra Svartfjallaland fyrir fimm reglubrot sem áttu sér stað gegn Englandi. Stuðningsmenn voru með ólæti, kveiktu í flugeldum, köstuðu hlutum, sýndu kynþáttaníð og stóðu í stigagöngum. Málið verður afgreitt 16. maí. Líklegt er að Svartfellingar verði sektaðir fyrir hegðun sína og leikvanginum lokað fyrir næstu umferðir.

„Ég tók ekki eftir kynþáttafordómum og heyrði ekki í neinum níðsöngvum. Ég sé ekki hvers vegna ég ætti að tjá mig um það," sagði Ljubisa Tumbakovic, þjálfari Svartfellinga, að leikslokum.

UEFA tilkynnti á sama tíma að mál Chelsea væri undir rannsókn eftir að Callum Hudson-Odoi varð fyrir kynþáttaníð í 0-5 sigri í Kænugarði.
Athugasemdir
banner
banner
banner