mán 15. apríl 2019 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hlutverk Grétars hjá Everton hefur stækkað
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marcel Brands.
Marcel Brands.
Mynd: Getty Images
Grétar Rafn Steinsson, fyrrum landsliðsmaður Íslands, var í desember á síðasta ári ráðinn yfirnjósnari Everton í Evrópu.

Grétar Rafn var yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood í tæp fjögur ár og vann hann meðal annars mikið í leikmannamálum félagsins.

Marcel Brands var ráðinn sem yfirmaður íþróttamála hjá Everton síðastliðið sumar en Grétar þekkir hann frá tíma sínum hjá AZ Alkmaar.

Liverpool Echo, staðarmiðillinn í Liverpool, segir frá því að Grétar hafi haft mikil áhrif hjá Everton frá því hann kom til félagsins. Hlutverk hans hefur stækkað og vinna hann og Brands mjög náið saman.

Grétar þekkir vel til í neðri deildunum á Englandi og á hann að hjálpa Everton að finna hæfileikaríka leikmenn sem eru að koma upp í neðri deildunum. Hann á einnig að finna félög sem Everton getur lánað efnilega leikmenn til.

Grétar hefur þá unnið náið með Brands í að finna leikmenn sem hægt er að kaupa til félagsins í sumar.

Íslendingurinn er einnig að hjálpa til við að styrkja akademíuna hjá félaginu. Hann gerði góða hluti hvað það varðar hjá Fleetwood og hafa hugmyndir hans hrifið þá sem starfa hjá Everton.

Grétar Rafn spilaði á sínum tíma með Bolton í ensku úrvalsdeildinni en hann lagði skóna á hilluna árið 2013, þá 31 árs að aldri.

Hann er að gera góða hluti hjá Everton og jafnvel er talið að hann gæti verið eftirmaður Brands hjá Everton í framtíðinni.

Grétar Rafn Steinsson í Miðjunni (16. október)

Sjá einnig:
Brands: Grétar er eins og bolabítur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner