Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 20. apríl 2019 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Aguero getur jafnað met Thierry Henry í dag
Mynd: Getty Images
Argentínski sóknarmaðurinn Sergio Agüero getur í dag orðið annar leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora yfir 20 mörk á tímabili 5 ár í röð.

Sá eini sem hefur afrekað slíkt í enska boltanum er franska goðsögnin Thierry Henry sem bar lið Arsenal á herðum sér í nokkur ár undir stjórn Arsene Wenger, áður en hann hélt til Barcelona.

Það er erfitt að skora 20 mörk á tímabili í enska boltanum og ekki á hverju ári sem einhverjum tekst það. Til samanburðar skoraði Alan Shearer fjórum sinnum yfir 20 mörk á tímabili í deildinni og aldrei tókst honum að gera það tvö ár í röð.

Agüero er markahæstur í deildinni sem stendur ásamt Mohamed Salah. Báðir hafa þeir gert 19 mörk og lagt 7 upp.

Man City á stórleik í dag og getur Agüero gert tuttugasta markið sitt í deildinni á Etihad leikvanginum, gegn Tottenham. Liðin mættust á sama velli fyrr í vikunni og skoraði Agüero eitt í 4-3 sigri Man City. Sigurinn nægði þó ekki til að fleyta liðinu áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar og því hafa þeir ljósbláu harma að hefna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner