Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 23. apríl 2019 13:15
Arnar Daði Arnarsson
Rafn Markús: Getur brugðið til beggja vona
Inkasso spá þjálfara og fyrirliða: 10. sæti Njarðvík
Rafn Markús Vilbergsson.
Rafn Markús Vilbergsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Njarðvík er spáð 10. sætinu í Inkasso-deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða. Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkur, segir að sú spá komi sér lítið á óvart.

„Við vorum á þessum slóðum í fyrra ásamt sex öðrum liðum. Ég spái því að deildin verði svipuð í ár. Þrjú til fjögur lið sem berjast um að fara upp á meðan önnur lið verði í baráttu fram að síðustu umferðunum um tilverurétt sinn," sagði Rafn Markús í samtali við Fótbolta.net. Hann segir að liðið stefni hærra en 10. sætið.

„Við gerum okkur grein fyrir því að það getur brugðið til beggja vona. Með 10. sætinu næðum við grunnmarkmiðinu okkar sem er að tryggja stöðugleika félagsins í deildinni og sú niðurstaða yrði þannig ásættanlegur árangur en við viljum fara hærra líkt og við gerðum í fyrra."

Viljum alltaf gera betur
Njarðvík var nýliði í Inkasso-deildinni í fyrra og endaði í 6.sæti deildarinnar.

„Eftir að hafa spilað í deildinni í fyrra eftir margra ára fjarveru þá vitum við hversu krefjandi verkefni það er að spila í deildinni. Það eru rúmlega 30 ár síðan sem Njarðvík lék fleiri en tvö tímabil i röð í B-deild og er það því grunnmarkmiðið að festa Njarðvík áfram í sessi í Inkasso-deildinni, sem er mikilvægt fyrir okkar félag. En eftir frábært tímabil í fyrra þar sem við enduðum í efri hluta deildarinnar þá viljum við alltaf gera betur, en fyrsta markmiðið er að tengja saman mörg tímabil í deildinni og ná stöðugleika þar."

Miklar breytingar hafa verið á leikmannahópi Njarðvíkur í vetur.

„Það hefur verið meiri leikmannavelta hjá okkur á undirbúningstímabilinu en fyrir tímabilið í fyrra þar sem við spiluðum á mjög svipuðu liði og í 2. deildinni árið á undan. Við höfum misst ákveðna reynslu og gæði úr liðinu en stór kjarni þeirra leikmanna sem hafa verið hjá félaginu í mörg ár eru enn til staðar og eru reynslunni ríkari og auk þess höfum við bætt við okkur nokkrum flottum leikmönnum og karakterum," sagði Rafn Markús sem segir að liðið fari inn í sumarið með yngri og minni hóp en í fyrra.

„Við erum með þéttan hóp af Njarðvíkingum og leggjum áfram mikla áherslu á samheldni innan liðsins."

Fjöldi iðkenda í félaginu hefur margfaldast
Njarðvík fór í æfingaferð til Tyrklands á undirbúningstímabilinu. Rafn er ánægður með hvernig gekk að púsla saman liðinu á undirbúningstímabilinu. Hann segir að liðið komi vel undan vetri. Hann býst ekki við því að bæta við sig leikmönnum fyrir tímabilið.

„Við erum með augun opin fyrir leikmannastyrkingum. En við viljum vanda til verka og ef breytingar verða á hópnum þá viljum við að fá leikmann eða leikmenn sem passa inn í okkar leikskipulag og styrkja liðið."

Hann segir að liðið sé reynslunni ríkari eftir tímabilið í fyrra en jafnframt meðvitaðir um að annað tímabilið er oft erfiðara en það fyrsta í nýrri deild.

„Við leggjum mikla áherslu á að standa saman og þurfum að leggja enn meira á okkur en áður. Inn á vellinum þurfum við að sýna karakter og styrk og halda vel í okkar sterku einkenni og fá þannig Njarðvíkinga með okkur í stúkunni. Með auknum árangri hefur áhuginn aukist hjá Njarðvíkingum og öðrum að mæta á völlinn hjá okkur og vonandi verður framhald á því."

„Mikilvægt er fyrir Njarðvík sem félag að halda rétt á spöðunum á næstu árum þar sem fjöldi iðkenda í félaginu hefur margfaldast á síðustu árum og þurfum við ávallt að stefna hærra. Eins og ég nefndi áður þá tel ég að deildin verði tvískipt eins og á síðasta tímabili en ég tel að það sé raunhæft fyrir okkur að stefna á efri hluta deildarinnar og enda á svipuðum slóðum og í fyrra," sagði Rafn Markús að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner