Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 23. apríl 2019 14:00
Mist Rúnarsdóttir
Mist sneri aftur eftir tvenn krossbandaslit: Kom aldrei til greina að hætta
Mist lék fyrsta mótsleikinn í tæp þrjú ár
Mist lék fyrsta mótsleikinn í tæp þrjú ár
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist í baráttunni gegn Blikum á Skírdag
Mist í baráttunni gegn Blikum á Skírdag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Val sumarið 2016
Í leik með Val sumarið 2016
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Valskonur ætla að gera harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum
Valskonur ætla að gera harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist Edvardsdóttir kom inná sem varamaður í liði Vals í úrslitaleik A-deildar Lengjubikarsins síðastliðinn fimmtudag. Það var hennar fyrsti mótsleikur frá sumrinu 2016 en tvenn krossbandaslit hafa haldið þessari öflugu knattspyrnukonu frá keppni undanfarin tvö sumur. Hún sleit krossbönd í upphafi árs 2017 og það var svo gríðarlegt áfall fyrir hana og Valsliðið þegar hún sleit aftur vorið 2018 en þá var hún nýkomin af stað aftur eftir langa endurhæfingu. Mótlætið hefur þó ekki stöðvað Mist sem er mætt aftur til leiks, full tilhlökkunar fyrir komandi tímabili.

Eins og fyrr segir kom Mist inná sem varamaður í úrslitaleik Lengjubikarsins á Skírdag. Hún lék síðustu 15 mínútur leiksins og segir það hafa verið sérstakt að hlaupa aftur inn á fótboltavöllinn.

„Tilfinningin var smá skrítin því það er orðið svo langt síðan ég spilaði síðast og á mínum svörtustu stundum óttaðist ég um að ég myndi aldrei ná því aftur, en á sama tíma var það svo eðlilegt að vera komin inn á völlinn aftur því þetta er eitthvað sem ég hef gert síðan ég var 4 ára og er það sem ég þekki og kann best. Ég er búin að sakna þess svo ólýsanlega mikið að spila fótbolta að þetta er bara endalaus gleði að vera komin aftur,” sagði Mist um endurkomuna.

Valskonur höfðu unnið riðlakeppni Lengjubikarsins með yfirburðum en náðu sér ekki almennilega á strik gegn sterku liði Breiðabliks í úrslitaleiknum sem fór 3-1 fyrir Blikum.

„Okkur voru svolítið mislagðir fætur allan leikinn og náðum illa upp takti í okkar leik. Það komu kaflar sem voru fínir en við náðum ekki að nýta færin sem við sköpuðum. Mér gekk sjálfri bara allt í lagi, við lögðum allt kapp á að jafna þessar lokamínútur og maður hefði viljað setja almennilega mark sitt á leikinn og ná því en þetta var ekki okkar dagur,” svaraði Mist aðspurð um leikinn sjálfan og eigin frammistöðu í endurkomunni eftir meiðslin.

Mist hefur farið varlega af stað aftur og gefið sér góðan tíma til að undirbúa sig fyrir alvöru keppnisátök. Hún segir mikilvægt að undirbúa sig vel andlega þar sem að endurkomunni fylgi ákveðinn ótti við að meiðast aftur.

„Standið á mér er mjög gott, ég er búin að vera að trappa mig upp í þátttöku á fótboltaæfingum frá því í byrjun janúar og ég er búin að vera í full contact síðan um miðjan mars og það hefur gengið rosa vel. Ég var frekar brennd af því að hafa slitið strax aftur og var svolítið komin með það á heilann að hnéð myndi bara gefa sig í hverju skrefi svo það var rosalega gott að ná þetta mörgum mánuðum í að trappa sig upp og gefa hausnum tímann til að jafna sig að fullu líka þvi hann er svo mikilvægur þáttur í þessu.”

Erfiður tími og mikil vinna að baki
Mist viðurkennir að síðustu tvö ár hafi verið henni gríðarlega erfið en hún hafi þó aldrei íhugað að taka ákvörðun um að hætta í fótbolta.

„Síðustu tvö ár hafa bara verið drulluerfið, sérstaklega eftir seinni slitin, og það komu nokkrum sinnum móment í fyrra þar sem ég hreinlega táraðist af öfund út í stelpurnar þegar þær fóru út á völl í fótbolta en ég fór ein inn i lyftingasal.”

„Ég tók þá ákvörðun strax eftir seinni slitin að ég myndi mæta á hverja einustu æfingu eins og aðrir leikmenn því þegar maður dettur svona út úr þessu er auðvelt að finnast maður ekki lengur tilheyra liðinu og það er svo mikilvægt að missa það ekki. Þetta var auðveldara í fyrra skiptið því við vorum fjórar sem slitum á undirbúningstímabilinu og maður var þá ekki einn í þessu en ég upplifði mig svolítið “on my own” í seinna skiptið og ég vissi þá hvað biði mín og hvað það er rosalega mikil vinna að koma hnénu aftur í stand svo það var bara gott að mæta á allar æfingar, sinna hnénu og reyna finna sér önnur hlutverk innan liðsins til að leggja eitthvað af mörkum,”
segir Mist sem minnist einnig á hlut sjúkraþjálfaranna sinna sem hún segir hafa verið ómetanlega í að hjálpa henni aftur af stað.

Ekki fyrsta mótlætið á ferlinum
Krossbandaslitin eru ekki einu erfiðleikarnir sem Mist hefur þurft að yfirstíga en árið 2014, aðeins 23 ára gömul, greindist hún með krabbamein. Hún náði að vinna bug á meininu og sneri aftur á völlinn sumarið 2015. Sumarið 2016 átti Mist virkilega gott tímabil og var lykilkona í sterku liði Vals en þá tóku krossbandameiðslin við.

„Það kom aldrei til greina að hætta en stundum læddist upp að mér óttinn um að það yrði ekki mín ákvörðun. Ég hef hins vegar aldrei leitt hugann að því sjálf að kalla þetta gott enda er ég ekki einu sinni komin í elsta liðið á æfingum. Síðustu 5 ár hafa farið á annan veg en ég sá fyrir mér þegar ég var 23 ára. Tímabilin 2014-2015 voru rosalega lituð af krabbameinsmeðferðinni sem ég fór í á þessum tíma, hún reyndi andlega mikið á mig og ég var rétt að komast almennilega af stað aftur og farin að njóta þess að spila fótbolta þegar krossbandavesenið tekur við, svo löngunin í að fá að spila fótbolta aftur er svo rosalega sterk. Að leggja skóna á hilluna eftir allt sem á undan hefur gengið hefði sennilega verið það síðasta sem mér hefði dottið í hug.”

Erfiðisvinna og þrautseigja hefur skilað Mist aftur inn á fótboltavöllinn og hún er eðlilega full tilhlökkunar fyrir komandi tímabili.

„Ég hef ekki verið svona spennt fyrir tímabilinu í mörg ár og hlakka fáránlega til að byrja þetta. Við erum með mjög skemmtilegan og stóran hóp og mikla samkeppni sem fær alla upp á tærnar. Við ætlum okkur að koma með titla aftur að Hlíðarenda en það eru fleiri lið í þessari deild sem ætla sér stóra hluti líka svo þetta verður eflaust mjög spennandi sumar,” sagði Mist að lokum en Pepsi Max-deild kvenna hefst eftir 10 daga og Valskonur þykja með sigurstranglegri liðum.
Athugasemdir
banner
banner