Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 26. apríl 2019 14:15
Arnar Daði Arnarsson
Gunnar Magnús: Gaman að nú er stundin loks að renna upp
Gunnar Magnús.
Gunnar Magnús.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Víkurfréttir
Nýliðar Keflavíkur í Pepsi Max-deild kvenna er spáð 8. sæti í spá Fótbolta.net fyrir sumarið.

Gunnar Magnús Jónsson þjálfari Keflavíkur telur að liðið geti staðið undir þessari spá og gott betur en það.

„Nýliðum er reyndar oftast spáð fallsæti þannig að það er í raun það eina sem kemur á óvart. Við teljum okkur vera með lið sem getur staðið undir þessari spá og gott betur. Það er ánægjulegt til þess að vita að sérfræðingarnir hafi trú á okkur," sagði Gunnar Magnús í samtali við Fótbolta.net og bætti við að markmið liðsins væri fyrst og fremst að byggja ofan á það starf sem unnið hefur verið í Keflavík undanfarin ár.

„Það hefur verið stígandi í liðinu undanfarin ár. Liðið er búið að eldast og þroskast á eðlilegum hraða og heldur vonandi áfram að vaxa og dafna. Við eigum mikið af ungum og efnilegum stelpum og margar þeirra hafa spilað með yngri landsliðum. Nú er þeirra tími kominn ásamt fleirum til að springa út á meðal þeirra bestu."

Það hefur farið lítið fyrir Keflvíkingum á leikmannamarkaðnum í vetur og það var meðvituð ákvörðun.

„Ég er sáttur við þá styrkingu sem við höfum fengið. Við ætlum að keyra að mestu á þeim stelpum sem komu liðinu upp. Eðlilega er mikil tilhlökkun að komast loksins á stóra sviðið. Stelpurnar hafa stefnt að þessu og gaman að nú er stundin loks að renna upp."

Keflavík missti markvörð sinn frá því í fyrra, Lauren Watson sem var valin í lið ársins í Inkasso-deildinni.

„Við eigum von á að bæta við okkur markmanni fyrir mót. Það er mikilvægt að hafa tvo góða markverði. Að öðru leyti eigum við ekki von á frekari liðsstyrk. Við höfum verið að byggja okkar lið að mestu á heimastelpum og viljum gera það áfram."

Gunnar segir að stærsti munurinn fyrir Keflavík frá tímanum í Inkasso-deildinni sé væntanlega aukin umfjöllun og umgjörð.

„Fótboltalega séð verður álagið meira og leikirnir harðari og hraðari. Bilið á milli deildanna hefur minnkað og tel ég að bestu liðin í Inkasso geti alveg spjarað sig gegn sjö liðum í Pepsi Max deildinni þetta árið," sagði Gunnar Magnús Jónsson þjálfari Keflavíkur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner