fim 25. apríl 2019 14:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp um Man Utd: Af hverju ættum við að hjálpa þeim?
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær.
Mynd: Getty Images
Í liði ársins.
Í liði ársins.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Liverpool mætir botnliði Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Liverpool er einu stigi á eftir Manchester City á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. City vann 2-0 sigur á Manchester United í gærkvöldi.

„Ég horfði á leikinn með eiginkonu minni og vini mínum og hann spurði mig hvernig ég gæti verið svona rólegur. Ég bjóst við þessum úrslitum," sagði Klopp.

„United reyndi, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, en þeir eiga ekki möguleika gegn City í augnablikinu. Það var ljóst á þessum 95 mínútum. Þetta kom mér ekki á óvart."

„Við verðum bara að vinna okkar leiki."

Klopp var svo spurður hvort hann væri með einhver ráð fyrir Ole Gunnar Solskjær, stjóra Manchester United. Þjóðverjinn sló þá á létta strengi.

„Þeir hjálpuðu okkur ekki, af hverju ættum við að hjálpa þeim?"


Er ekki að fara að kaupa Insigne
Lorenzo Insigne, kantmaður Napoli, hefur verið orðaður við Liverpool. Klopp segir þó ekkert til í því. Hann býst við rólegum sumarglugga.

„Við erum ekki að fara að kaupa Lorenzo Insigne. Hann er mjög góður leikmaður, en hann er með langan samning við Napoli og við munum ekki reyna að fá hann," sagði Klopp.

„Það er alltaf erfiðara að bæta liðið eftir því sem það verður betra. En það er góðs viti."

„Það er mjög gott jafnvægi í liðinu. Plön okkar eru ekki fyrir almenning. Verður þetta stærsti gluggi í sögu Liverpool? Nei, örugglega ekki. Augu okkar eru alltaf opin samt."

Um lið ársins
Lið ársins í ensku úrvalsdeildinni, valið af öðrum leikmönnum, var tilkynnt í morgun. Í því eru fjórir leikmenn Liverpool; Trent Alexander-Arnold, Andrew Robertson, Virgil van Dijk og Sadio Mane.

„Þetta er tilkomumikið, þetta er gott og verðskuldað. Að mínu mati er liðið mitt lið tímabilsins," sagði Klopp.

Mo Salah er ekki í liðinu að þessu sinni.

„Mo hefði átt skilið að vera þarna. Hann er á meðal markahæstu manna og hefur skorað mikilvæg mörk fyrir okkur."

„Gini (Wijnaldum) hefur líka átt ótrúlegt tímabil. Ef kosið hefði verið í dag þá hefði Henderson líka örugglega komist í liðið. En þetta er ákvörðun leikmanna."

Athugasemdir
banner
banner