Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 17. maí 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Hófið - Óli Jó stýrir fjölmiðlamönnum og agalausir FH-ingar
Óli Jó í viðtali við RÚV eftir sigurinn á Fylki.
Óli Jó í viðtali við RÚV eftir sigurinn á Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hressir boltastrákar í Árbænum.
Hressir boltastrákar í Árbænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik KA og Breiðabliks.
Úr leik KA og Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Garðar Gunnlaugsson var vel til fara í Árbænum.
Garðar Gunnlaugsson var vel til fara í Árbænum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Maggi Bö var í KR-útvarpinu í gær.
Maggi Bö var í KR-útvarpinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Fjórða umferð Pepsi Max-deildarinnar einkenndist af jafnteflum. Fótbolti.net heldur uppteknum hætti og gerir upp hverja umferð með því að halda sérstakt lokahóf eftir hverja umferð!

Lokahófið er á léttu nótunum en við erum alltaf tilbúin að taka við kvörtunum í gegnum tölvupóst!

Leikur umferðarinnar: Víkingur R. og Stjarnan buðu upp á markaveislu í Laugardalnum. Stjarnan sem hefur átt í vandræðum með að skora mörk úr opnum leik hentu í fjögur mörk í grímuna á Víkingum sem svöruðu til baka með þremur. Færi á báða bóga, mistök, lélegar varnir og góðar sóknir. Stundum er eitthvað svo fallegt við það allt saman.

EKKI lið umferðarinnar:

Rúmlega helmingur EKKI-liðsins eru leikmenn ÍBV og Víkings R. sem áttu erfiða umferð. Þetta eru einmitt þau tvö lið sem eru enn án sigurs á botni deildarinnar.

Léttir umferðarinnar: Fyrsti sigur Íslandsmeistarana til tveggja ára Vals er kominn í hús eftir fjórar umferðir. 1-0 útisigur á öflugu Fylkisliði staðreynd og leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og stuðningsmenn Vals geta andað léttar.

Frystikista umferðinnar: Gary Martin leikmaður Vals er út í kuldanum hjá Ólafi Jóhannessyni og var ekki í leikmannahópi Vals í sigrinum gegn Fylki. Gary Martin var meinað að æfa með liðinu á æfingunni fyrir leik og ekki er vitað hvort hann æfi með liðinu á næstu æfingu liðsins.

Stjarna fæðist: Bjarki Steinn Bjarkason. Skoraði bæði mörk ÍA í 2-0 sigri á FH. Bjarki Steinn er sonur handbolta-goðsagnarinnar Bjarka Sigurðssonar. Bjarki yngri varð 19 ára fyrr í þessum mánuði er uppalinn í Mosfellsbæ en gekk í raðir ÍA fyrir síðasta tímabil. Hann hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu og leikið alla leiki ÍA í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Nýliði umferðarinnar: Hermann Ágúst Björnsson kom inná í 2-1 sigri Grindavíkur á KR í gærkvöldi. Hermann Ágúst sem verður 27 ára seinna í sumar var að leika sínar fyrstu mínútur í efstu deild. „Ég var hættur þessu og þetta var ekki í myndinni fyrir hálfu ári eða svo." sagði Hermann Ágúst í viðtali eftir leik.

Fjölmiðlalögreglan: Ólafur Jóhannesson bannaði fréttamönnum að spyrja út í Gary Martin sóknarmann Vals fyrir viðtölin eftir leik Fylkis og Vals í Árbænum. „Óli Jó neitaði að svara spurningum um Gary Martin eftir leikinn. 'Ég bara nenni ekki að tala um þennan mann' sagði hann, í grófari tón en ég er að tala núna," sagði Elvar Geir í Innkastinu í gærkvöldi.

Dónaskapur umferðarinnar: Pétur Viðarsson varnarmaður FH fékk að líta beint rautt spjald í 2-0 tapi FH gegn ÍA á Skaganum. Hann lét annan aðstoðardómara leiksins, Eystein Hrafnkelsson heyra það í miðjum leik og spurði hann, hvort hann væri þroskaheftur. Pétur Guðmundsson dómari leiksins var ekki lengi að sýna Pétri rauða spjaldið og senda nafna sinn í sturtu.

Agaleysi umferðarinnar: Guðmundur Kristjánsson slapp heldur betur með skrekkinn þegar hann keyrði aftan í Hall Flosason þegar boltinn var víðsfjarri og sló hann í andlitið í leiðinni. Pétur Guðmundsson dómari virðist ekki hafa séð högginn og spjaldaði Guðmund aðeins fyrir fyrra atvikið.

Allt í öllu umferðarinnar: Magnús Valur Böðvarsson var ráðinn vallarstjóri á Meistaravelli heimavelli KR fyrir sumarið en Maggi Bö. eins og hann er kallaður hefur verið vallarstjóri hjá Breiðabliki undanfarin ár með frábærum árangri. Eftir að Breiðablik skipti um undirlag á sínum heimavelli og fór í gervigrasið voru KR-ingar fljótir að semja Magga Bö til sín. Hann virðist nú vera allt í öllu hjá KR því í gærkvöldi var hann mættur í KR-útvarpið og lýsti þar leik Grindavíkur og KR.

Dómari umferðarinnar: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leik Víkings R. og Stjörnunnar nánast óaðfinnanlega. „Vilhjálmur Alvar er besti dómari Íslands í dag," skrifaði Elvar Geir Magnússon ritstjóri Fótbolta.net í Skýrslunni um leikinn og gaf Vilhjálmi 9 í einkunn.

Sjá einnig:
Lið 4. umferðar



Athugasemdir
banner
banner
banner