þri 21. maí 2019 09:30
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 3. umferð: Nýtt í íslenskum fótbolta
Axel Sigurðarson - Grótta
Axel fékk kassa af Ripped fyrir að vera bestur í umferðinni.
Axel fékk kassa af Ripped fyrir að vera bestur í umferðinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grótta fagnar einu af mörkum Axels.
Grótta fagnar einu af mörkum Axels.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Maður getur ekki verið annað en ánægður eftir svona leik. Heilt yfir finnst mér spilamennskan mín og hjá liðinu hafa verið góð í vetur og í byrjun móts og stefnan er að halda áfram á sömu braut," sagði Axel Sigurðarson leikmaður Gróttu sem gerði sér lítið fyrir og skoraði tvívegis og fiskaði auk þess víti í 3-2 sigri Gróttu á Þór í 3. umferð Inkasso-deildarinnar.

Axel Sigurðarson er leikmaður 3. umferðar í Inkasso-deildinni.

„Þetta var erfiður leikur við mjög gott og vel spilandi lið. Við byrjuðum leikinn vel og vorum komnir í 2-0 eftir fimm mínútur. Þeir hins vegar voru meira með boltann og minnkuðu muninn fljótlega og sköpuðu sér nokkur fín færi til að jafna leikinn. Það var því gott að ná inn einu marki í viðbót fyrir hálfleik," sagði Axel en staðan í hálfleik var 3-1 fyrir Gróttu. Heldur betur óvænt staða.

„Í seinni hálfleik sóttu þeir mikið og skoruðu snemma og við gerðum þetta kannski óþarflega spennandi undir lokin en sem betur fer náðum við að sigla þessu heim."

„Við lögðum leikinn upp eins og hvern annan leik, það er að mæta með hugrekki og karakter, spila okkar leik og vera besta útgáfan af okkur sjálfum. Við þurftum þó að aðlaga okkur aðeins að vallaraðstæðum."

Grótta er með fjögur stig eftir þrjár umferðir.

„Við erum mjög sáttir með að vera með fjögur stig eftir tvo erfiða útileiki á móti sterkum liðum og einn heimaleik þar sem við lékum einum færri í 45 mínútur."

Axel var lánaður í Gróttu frá KR fyrir tímabilið en hann lék á láni með ÍR í Inkasso-deildinni í fyrra og HK sumarið á undan. Hann er fæddur árið 1998.

Gróttuliðið er ungt að árum og var meðalaldur liðsins í leiknum gegn Þór rétt rúmlega 22 ár. Litlar breytingar urðu á liðinu frá því í fyrra en liðið er nýliði í Inkasso-deildinni.

„Allir strákarnir þekkjast mjög vel og það hefur myndast svakalega góð stemming í hópnum og mikil liðsheild. Aðstaðan hjá Gróttu er góð og það er vel hugsað um okkur. Það er líka skemmtilegt að sjá hvað það er mikill áhugi á liðinu og margir sem koma að styðja okkur. Það sem Grótta er að gera er mjög spennandi og nýtt í íslenskum fótbolta," sagði Axel sem viðurkennir að það hafi alveg komið til greina að spila með KR í Pepsi Max-deildinni í sumar.

„Það var alveg inn í myndinni en ég og Rúnar tókum gott spjall fyrir jól og eftir það var ljóst að ég færi á lán. Það komu nokkur lið til greina en að lokum leist mér best á Gróttu. Ég þekkti Óskar og Halldór mjög vel fyrir og vissi að þeir voru að gera góða hluti þarna," sagði besti leikmaður 3. umferðar í Inkasso-deildinni, Axel Sigurðarson.

Sjá einnig:
Bestur í 2. umferð - Rúnar Þór Sigurgeirsson (Keflavík)
Bestur í 1. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
Athugasemdir
banner
banner