Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 21. maí 2019 13:32
Elvar Geir Magnússon
Mkhitaryan mjög sár - UEFA segist hafa tryggt öryggi hans
Henrikh Mkhitaryan.
Henrikh Mkhitaryan.
Mynd: Getty Images
Arsenal staðfesti í dag að Henrikh Mkhitaryan yrði ekki með í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Bakú í Aserbaídsjan. Leikið verður gegn Chelsea.

Pólitísk spenna er milli Aserbaídsjan og heimalands Mkhitaryan, Armeníu, og telur Arsenal að öryggi leikmannsins sé í hættu. Eftir að hafa fundað með honum og fjölskyldu hans var ákveðið að leikmaðurinn myndi ekki ferðast í verkefnið.

„Eftir að hafa velt fyrir mér öllum möguleikum þurftum við að taka þá erfiðu ákvörðun að ég mun ekki ferðast með í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Svona leikur kemur ekki oft á ferli leikmanna og ég viðurkenni að það er mjög sárt að missa af honum. En ég styð liðsfélaga mína áfram og vonandi kemur bikarinn heim!" skrifaði Mkhitaryan á Instagram.

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, segist hafa verið fullvissað frá æðstu stjórn í Aserbaídsjan að öryggi leikmannsins yrði tryggt. Sérstök öryggisáætlun hafi verið sett upp.

„Arsenal veit hvað UEFA og ríkisstjórn Aserbaídsjan hafa gert í málinu en við virðum þá persónulegu ákvörðun að leikmaðurinn mæti ekki í leikinn," segir í tilkynningu UEFA.

Það hefur verið harðlega gagnrýnt að úrslitaleikurinn fari fram í Bakú en Arsenal og Chelsea fá bara um 6 þúsund miða hvort félag fyrir stuðningsmenn sína, þrátt fyrir að leikvangurinn taki 69 þúsund manns. Ráðherrar í Aserbaídsjan segja að Bakú ráði ekki við að taka á móti fleiri ferðamönnum sem mæta á leikinn.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner