þri 21. maí 2019 13:51
Elvar Geir Magnússon
Vill að PSG og Man City verði sparkað úr Evrópukeppnum - „Félögin eru leiktæki"
Javier Tebas.
Javier Tebas.
Mynd: Getty Images
Manchester City og Paris Saint-Germain eru „leiktæki ríkja" og það ætti að sparka þeim úr Evrópukeppnum fyrir að brjóta reglur um fjármál. Þetta segir Javier Tebas, forseti spænsku deildarinnar La Liga.

Tebas segir að City og PSG séu að setja fótboltaiðnaðinn í hættu með gríðarlegri eyðslu og hegðun sinni.

„Það eru félög sem gætu ekki verið meira sama um hver innkoman sé þegar þau kaupa leikmenn vegna þess að innkoman kemur frá þjóðríki. Þetta skekkir allt jafnvægi í evrópskum fótbolta," segir Tebas.

„Þetta er ekki lengur íþrótt, þetta er ekki lengur iðnaður. Þetta er eins og leiktæki sem ríki eru að nota. Svo byrja krakkarnir að leika sér við aðra krakka. Á endanum er allt kerfið ónýtt."

Eigandi Manchester City, Sheik Mansour, er varaforsætisráðherra Sameinuðu furstadæmanna en PSG er í katarskri eigu.

Manchester City er undir smásjá UEFA en félagið er sakað um brot á fjárhagsreglum og hætt á að liðið verði dæmt í bann frá Meistaradeildinni. Félagið heldur fram sakleysi sínu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner