mán 27. maí 2019 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Verður Björgvini refsað? - „Drulla á skrifstofu KSÍ"
Björgvin í leik með KR.
Björgvin í leik með KR.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Björgvin gæti verið á leið í fimm leikja bann.
Björgvin gæti verið á leið í fimm leikja bann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórarinn Ingi slapp við bann.
Þórarinn Ingi slapp við bann.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Elvar Geir Magnússon og Tómas Þór Þórðarson ræddu auðvitað mál málanna í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X-inu 977 á laugardag.

Björgvin Stefánsson, sóknarmaður KR, gæti átt yfir höfði sér fimm leikja bann eftir rasísk ummæli í lýsingu á leik í Inkasso-deildinni í síðustu viku.

„Í fyrsta lagi er það ótrúlega mikið íslenskt eitthvað að eitt helsta nafnið í Pepsi Max-deildinni sé að lýsa leikjum á netsjónvarpsstöð Hauka í Inkasso-deildinni," sagði Elvar Geir.

„Þetta er svo extra leiðinlegt af því að Bjöggi er að reyna að gefa svo mikið af sér til fótboltans. Hann er góður í fótbolta og er búinn að koma með mikinn lit inn í þetta. Þetta fagn hans var geggjað, þetta er eitthvað sem yngri kynslóðin tengir við og það er það sem verið er að reyna, að yngja upp í aðdáandahópnum. Ég ætla ekki að segja að hann sé Instagram-stjarna en hann tengir við nýjan áhorfendahóp. Við sjáum að Víkingar, Skagamenn og fleiri eru farin að selja miða fyrir yngra fólk, nánast að gefa þessa miða. Hann er mikilvægur í þessu," sagði Tómas.

„Svo er hann líka sem Pepsi Max-stjarna að gefa af sér til uppeldisfélagsins með því að vera virkur í hlaðvarpinu þeirra og tala þar um Haukana. Hann er einnig að gefa sér tíma að lýsa leikjum á Haukar TV sem handfylli manns eru að horfa á."

„Ég er alls ekki að afsaka neitt, ég er bara að segja það sem hann er að reyna að gera. Því er það extra ömurlegt að hann hafi látið þetta úr munni sér falla."

Fer Björgvin í bann?
Miðað við sextándu grein í reglum KSÍ um aga- og úrskurðarmál fer Björgvin Stefánsson, sóknarmaður KR, líklega í fimm leikja bann að minnsta kosti.

Í agareglum KSÍ segir:
„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000. Ef sá brotlegi er forsvarsmaður liðs skal sekt félags nema að lágmarki kr. 150.000."

Á undirbúningstímabilinu fékk Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, rautt spjald fyrir fórdómafull ummæli um geðsjúkdóma í garð Ingólfs Sigurðssonar, leikmanns Leiknis í Breiðholti.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, ræddi mál Björgvins í viðtali á laugardag og þar nefndi hann tvö dæmi. Annars vegar máls Þórarins Inga og hins vegar mál Péturs Viðarssonar á dögunum. Pétur kallaði þá aðstoðardómara „þroskaheftan" og fékk bara einn leik í bann.

„Það er búið að dæma í tveimur álíka málum. Þar var talað um aðra hluti sem eru ekkert ómerkilegri en þessi sem hann er að tala um það. Það var ekkert dæmt í því. Ég get ekki séð hvernig það eigi að dæma Björgvin í bann. Hann er búinn að biðjast afsökunar," sagði Rúnar.

Koma sér í hræðilega stöðu
„Það er dómari leiksins Þorvaldur Árnason sem gerir stærstu mistökin í máli Þórarins Inga að mínu mati," sagði Elvar Geir í útvarpsþættinum í gær. „Hann skráir ekki í skýrsluna hvers eðlis orðin voru hjá Þórarni Inga."

„Það gerir það að verkum að aganefndin getur ekkert gert. Topparnir hjá KSÍ klikka, þeir sem eiga að bregðast við og eiga að vernda ímynd fótboltans."

„Þeir koma sér í hræðilega stöðu," sagði Tómas Þór. „Þú getur ímyndað hvað þeir klúðruðu þessu með miklum stæl. 'Reynum að gera ekkert í þessu og vonum að það geri enginn neitt af sér í sumar þannig að þetta gleymist'."

„Þetta er drulla á skrifstofu KSÍ," sagði Elvar Geir þá.

Um Björgvin sögðu þeir að lokum:

„Hann verður bara að taka afleiðingum gjörða sinna."

Nánar má hlusta á umræðuna hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner