mið 12. júní 2019 08:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pogba: Varð annar leikmaður út af verðmiðanum
Mynd: Getty Images
Paul Pogba, leikmaður Manchester United, er fyrsti gesturinn í nýju hlaðvarpi hjá The Times. Hann telur að fólk dæmi sig harðar en aðra fótboltamenn.

Hinn 26 ára gamli Pogba hefur fengið mikla gagnrýni frá því hann sneri aftur til Manchester United frá Juventus árið 2016. Liðið hefur endað í sjötta sæti tvisvar af þremur leiktíðum Pogba hjá félaginu.

United borgaði 89 milljónir punda til þess að fá Pogba aftur til félagsins. Sumarið 2016 varð hann dýrasti leikmaður í heimi, en síðan þá hefur met hans verið slegið af Brasilíumanninum Neymar.

„Ég varð annar leikmaður út af félagskiptunum," segir Pogba í hlaðvarpinu.

„Þú ert dæmdur öðruvísi vegna þess að þetta voru stærstu félagaskipti sögunnar. Það er búist við meiru frá þér út af verðmiðanum. Góður leikur verður venjulegur leikur, frábær leikur verður góður leikur."

Á þessu tímabili skoraði Pogba 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni og er það í fyrsta sinn sem hann kemst í tveggja stafa markatölu í deildarkeppni. Hann lagði einnig upp níu mörk og var hann bæði markahæstur og stoðsendingahæstur hjá United.

En samt voru margir ósáttir með frammistöðu hans.

Síðasta sumar varð Pogba Heimsmeistari er Frakkland stóð uppi sem sigurvegari í mótinu sem haldið var í Rússlandi. Pogba var frábær á mótinu.

„Ég spila alltaf svona og guði sé lof að ég vann HM svona. Líkamstjáning, hárgreiðslur, ég tjái mig með þessu," segir Pogba sem hefur einmitt oft verið gagnrýndur fyrir að breyta oft um hárgreiðslu.

Pogba hefur verið orðaður við Juventus og Real Madrid og spurning hvort hann verði hjá Manchester United á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner