fös 14. júní 2019 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spilar ekki á HM trúarinnar vegna
Jaelene Hinkle.
Jaelene Hinkle.
Mynd: Getty Images
Bandaríkin unnu sinn fyrsta leik á HM 13-0.
Bandaríkin unnu sinn fyrsta leik á HM 13-0.
Mynd: Getty Images
Bakvörðurinn Jaelene Hinkle er ekki að spila með Bandaríkjunum á HM í Frakklandi af trúarlegum ástæðum.

Árið 2017 neitaði hún að spila landsleiki gegn Svíþjóð og Noregi vegna þess að númerin á treyjunum voru regnbogalituð. Hún vildi meina að kristileg trú hennar leyfði henni ekki að spila í treyjum sem styðja réttindi samkynhneigðra.

„Ég fann það sterklega að það væri ekki í mínum anda að klæðast þessum búningum," sagði Hinkle.

Þessi ákvörðun hennar var ekki til að auka vinsældir hennar er hún spilaði með North Carolina Courage í bandarísku deildinni. Stuðningsmenn mótherjanna notuðu hvert tækifæri til að baula á hana.

Þrátt fyrir baulið hélt hún áfram að spila vel og var hún aftur valin í bandaríska landsliðið í fyrra. Margir höfðu áhyggjur af því hvernig hún myndi koma inn í hópinn þar sem nokkrar af stærstu stjörnum liðsins og þjálfarinn, Jill Ellis, eru samkynhneigðar.

Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta ekki vel og þremur dögum eftir að verkefnið hófst var hún send heim. Sumir telja að það hafi verið brella hjá bandaríska knattspyrnusambandinu að velja Hinkle og senda hana snögglega heim, brella til að forðast málsóknir fyrir mismunun í framtíðinni.

Bandaríkin unnu sinn fyrsta leik á HM 13-0 gegn Taílandi. Í hópnum er enginn náttúrulegur vinstri bakvörður, að minnsta kosti engin með svipaða hæfileika og Hinkle.

Crystal Dunn byrjaði í vinstri bakverði fyrir Bandaríkin gegn Taíland, en hún spilar vanalega sem sóknarmaður fyrir félagslið sitt.

Nánar er hægt að lesa um málið hérna.

Næsti leikur Bandaríkjanna er gegn Síle á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner