þri 18. júní 2019 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sjáðu atvikið: Lét endurtaka vítaspyrnu Frakka
Mynd: Getty Images
Afar umdeilt atvik átti sér stað á HM kvenna í gær þegar heimamenn í Frakklandi unnu 1-0 sigur á Nígeríu í mikilvægum leik í A-riðli.

Eina mark leiksins skoraði Wendie Renard úr vítaspyrnu en hún fékk að taka spyrnuna tvívegis. Fyrri spyrnunni klúðraði hún með að skjóta í stöngina og framhjá.

Eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi ákvað dómari leiksins að láta endurtaka vítaspyrnuna. Markvörður Nígeríu steig af marklínunni áður en skotinu var hleypt af.

Ákvörðunin er umdeild af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafði staðsetning markvarðarins ekki áhrif á spyrnuna og í öðru lagi voru leikmenn Frakka komnir inn í vítateiginn áður en fótur Renard snerti knöttinn.

Þetta var afar mikilvægur leikur fyrir Nígeríu, jafntefli hefði tryggt liðinu áframhaldandi þátttöku á mótinu. Nígería er þó ekki úr leik, liðið gæti enn farið áfram sem eitt af stigahæstu 3. sætum riðlakeppninnar.

Hægt er að skoða atvikið á vefsíðu RÚV, með því að smella hér.







Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner