banner
   þri 18. júní 2019 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bowyer búinn að skrifa undir hjá Charlton (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Það eru merkilegar fregnir að koma úr ensku Championship deildinni því Lee Bowyer er búinn að skrifa undir nýjan samning við Charlton Athletic. Þessar fregnir berast innan við sólarhringi frá tilkynningu Charlton um að Bowyer ætlaði ekki að halda áfram við stjórnvölinn.

Charlton gaf út furðulega yfirlýsingu í kjölfarið, sem var nokkuð augljóslega skrifuð af eigandanum, þar sem brottför Bowyer var útskýrð. Hann vildi laun sem eru samanburðarhæf við aðra stjóra í Championship deildinni en slæm fjárhágsstaða Charlton hjálpar ekki til í þeim efnum.

Bowyer kom Charlton upp úr ensku C-deildinni í upphafi sumars og á heljarinnar verk fyrir höndum sér ef hann ætlar að halda félaginu uppi í Championship deildinni.

Bowyer er mikill stuðningsmaður Charlton og ber taugar til félagsins. Það er talin helsta ástæða fyrir því að hann framlengdi samninginn, því hann gæti fengið tíu sinnum hærri laun hjá toppbaráttuliðum deildarinnar. Samningur Bowyer gildir út tímabilið.

„Ég er ánægður að samningsviðræðunum sé lokið. Þetta voru erfiðar viðræður og ég vildi aldrei yfirgefa félagið. Ég elska þetta félag og vil þakka eigandanum fyrir að hafa trú á mér," sagði Bowyer.
Athugasemdir
banner
banner
banner