þri 18. júní 2019 14:37
Elvar Geir Magnússon
Platini heldur fram sakleysi sínu
Michel Platini.
Michel Platini.
Mynd: Getty Images
Michel Platini, fyrrum forseti UEFA, var yfirheyrður í morgun en hann er sakaður um spillingu þegar kom að því að veita Katar gestgjafaréttinn á HM 2022.

Platini hefur aldrei farið leynt með að hafa kosið Katar en segist ekki hafa tekið þátt í neinu ólöglegu í tengslum við kosninguna.

Það vakti mikla athygli þegar Katar varð fyrir valinu en þetta litla en auðuga ríki hefur litla fótboltahefð.

Meira en helmingur þeirra 22 stjórnarmanna FIFA sem kusu hefur verið sakaður um að taka við mútum.

Platini hefur gefið frá sér yfirlýsingu en í henni segir lögmaður hans, William Bourdon, að skjólstæðingur sinn sé saklaus og sé samvinnufús til að aðstoða við rannsóknina.

Í yfirlýsingunni segir að ekki hafi verið um handtöku að ræða heldur aðeins yfirheyslu. Platini hafi svarað öllum spurningum og gefið útskýringar.

Platini var forseti UEFA frá 2007-2015. Hann hætti sem forseti þegar hann var dæmdur í sex ára bann frá afskiptum af fótbolta. Það bann var svo stytt niður í fjögur ár af alþjóðlega íþróttadómstólnum CAS.
Athugasemdir
banner
banner
banner