fim 27. júní 2019 10:00
Arnar Daði Arnarsson
Andri Fannar: Ótrúlegustu hlutir geta gerst í bikarnum
Andri Fannar Freysson.
Andri Fannar Freysson.
Mynd: Haukur Gunnarsson
„Það er alltaf viss sjarmur yfir KR og marga sem dreymir örugglega um að spila á KR velli fyrir framan fullan stúka, en staðreyndin er sú að það gætu verið tveir uppaldir Njarðvíkingar sem leiða sitthvort liðið inn á völlinn í kvöld," sagði fyrirliði Njarðvíkur, Andri Fannar Freysson sem mætir KR í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Hann viðurkennir að þetta sé gamall draumur að spila á KR-vellinum.

„Við verðum tilbúnir í kvöld og gefum okkur alla í þetta."

„Það er gríðarlega mikil tilhlökkun fyrir leiknum. Það er létt stress í bland við smá spennu og tillhlökkun við að mæta heitasta liði landsins um þessar mundir svo þetta gæti ekki verið meira krefjandi verkefni sem gerir þetta ennþá skemmtilegra."

Eftir sigur Njarðvíkur á Keflavík í 16-liða úrslitum bikarsins hefur ekkert gengið hjá liðinu í Inkasso-deildinni og hefur liðið nú tapað síðustu fimm leikjum í deildinni. Andri Fannar segir að það sér erfitt að svara því hvað orsaki slakt gengið að undanförnu.

„Ég hef allavegana komið inn í hvern einasta leik með það hugarfar að við værum að fara vinna leikinn og undirbúningur og tilfinningin sem ég er búin að hafa fyrir leiki er góð. En hvort að KR leikurinn hafi verið að trufla veit ég ekki. Ætli við verðum ekki bara að bíða og sjá hvað gerist í næstu leikjum eftir KR leikinn?" spyr Andri Fannar.

Varnarmaðurinn, Toni Tipuric fór meiddur af velli gegn Keflavík í bikarleiknum. Hann hefur ekkert leikið með liðinu í síðustu fimm tapleikjum. Andri segir að liðið sakni hans.

„Toni er frábær leikmaður sem var búinn að standa sig mjög vel áður en hann meiðist. Hann var búinn að vera fastamaður í byrjunarliðinu en það styttist í að hann komi aftur. Það þýðir ekki að gráta það. Við erum með fleiri menn í hóp sem hafa þá fengið tækifæri til þess að spila meira og hafa staðið sig vel."

Andri Fannar segist finna fyrir miklum áhuga Njarðvíkinga fyrir leiknum. „Bikarinn er alltaf öðruvísi en deildin og ótrúlegustu hlutir geta gerst í bikarnum. Miðað við stuðninginn sem við fengum í Keflavíkurleiknum þá býst ég við svipuðum stuðning og áhuga á leiknum í kvöld," sagði Andri Fannar Freysson fyrirliði Njarðvíkur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner