mið 14. ágúst 2019 21:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool vann Ofurbikar Evrópu
Liverpool er meistari meistaranna í Evrópu.
Liverpool er meistari meistaranna í Evrópu.
Mynd: Getty Images
Adrian reyndist hetjan.
Adrian reyndist hetjan.
Mynd: Getty Images
Mane skoraði tvö.
Mane skoraði tvö.
Mynd: Getty Images
Reynt að hugga Tammy Abraham.
Reynt að hugga Tammy Abraham.
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 2 Chelsea (5-4 í vítakeppni)
0-1 Olivier Giroud ('36 )
1-1 Sadio Mane ('48 )
2-1 Sadio Mane ('95 )
2-2 Jorginho ('101 , víti)

Liverpool vann Ofurbikar Evrópu eftir vítaspyrnukeppni. Leikurinn fór fram í Istanbúl í kvöld.

Í leiknum mættust liðin sem unnu Meistaradeildina og Evrópudeildina á síðasta tímabili. Það voru enskir úrslitaleikir í þessum keppnum á síðustu leiktíð. Liverpool vann Tottenham 2-0 í Meistaradeildinni og Chelsea vann 4-1 sigur á Arsenal í Evrópudeildinni.

Enska úrvalsdeildin hófst um síðustu helgi. Þar vann Liverpool 4-1 sigur á Norwich á meðan Chelsea tapaði 4-0 gegn Manchester United.

Fyrir utan varnarleikinn þá spilaði Chelsea ekki illa á móti United, sérstaklega ekki í fyrri hálfleiknum. Chelsea var einnig sterkari í fyrri hálfleiknum í kvöld og þeir komust yfir á 36. mínútu þegar Olivier Giroud skoraði eftir undirbúning N'Golo Kante og Christian Pulisic.

Pulisic skoraði stuttu síðar laglegt mark, en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Staðan var 1-0 í hálfleik. N'Golo Kante byrjaði ekki fyrsta leikinn í ensku úrvalsdeildinni vegna meiðsla. Hann átti mjög góðan leik í kvöld og hafði mikil áhrif á sitt lið.

Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Liverpool og var það Sadio Mane sem gerði það. Mane byrjaði ekki fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann var nýkominn til æfinga aftur eftir að hafa tekið þátt í Afríkukeppninni í sumar.

Liverpool var sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum, en ekki voru fleiri mörk skoruð í þeim hálfleik og því var framlengt. Sumir telja það asnalegt að framlengja í þessum leik þar sem leikmenn eru að byrja tímabilið og eru þreyttir, en það er bara eins og það er.

Sadio Mane kom Liverpool aftur yfir í framlengingunni, á 95. mínútu eftir sendingu frá Roberto Firmino. Mane fékk boltann í teignum og negldi honum svoleiðis inn. Ekki möguleiki fyrir Kepa að verja.

En Chelsea gafst ekki upp. Bláliðar frá London fengu vítaspyrnu þegar Tammy Abraham féll í teignum eftir viðskipti Adrian. Spænski markvörðurinn vildi meina að hann hefði ekki snert Abraham, en Stephanie Frappart, dómari leiksins, benti á punktinn. Endursýningar gáfu litla vísbendingu um það hvort þetta hefði verið réttur dómur eða ekki. Á punktinn steig Jorginho og skoraði.

Chelsea pressaði eftir sigurmarki og fékk Tammy Abraham dauðafæri til að tryggja sigurinn, en hann hitti ekki boltann. Lokatölur 2-2 og vítaspyrnukeppni næst á dagskrá.

Í vítaspyrnukeppninni reyndist Adrian, varamarkvörður Liverpool, hetjan. Hann varði síðustu vítaspyrnu Chelsea sem Tammy Abraham tók. Hann skildi fótana eftir og varði með þeim.

Evrópumeistarar Liverpool vinna því Ofurbikar Evrópu. Aftur vann Liverpool í vítaspyrnukeppni í Istanbúl, liðið gerði það eftirminnilega í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2005.

Það er spurning hvernig þessi leikur kemur til með að hafa áhrif á liðin þar sem hann fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Menn verða eflaust þreyttir í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Liverpool mætir Southampton á laugardag, og Chelsea mætir Leicester á sunnudag.

Vítaspyrnukeppnin (5-4):
1-0 Roberto Firmino skoraði
1-1 Jorginho skoraði
2-1 Fabinho skoraði
2-2 Ross Barkley skoraði
3-2 Divock Origi skoraði
3-3 Mason Mount skoraði
4-3 Trent Alexander-Arnold skoraði
4-4 Emerson skoraði
5-4 Mohamed Salah skoraði
5-4 Tammy Abraham klúraði


Athugasemdir
banner
banner
banner