Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 15. ágúst 2019 11:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Frappart braut blað í sögunni - Klopp og fleiri hrósa henni
Gult spjald!
Gult spjald!
Mynd: Getty Images
Frappart með verðlaunapening að leik loknum.
Frappart með verðlaunapening að leik loknum.
Mynd: Getty Images
Dómarateymið.
Dómarateymið.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Liverpool vann leikinn eftir vítaspyrnukeppni.
Liverpool vann leikinn eftir vítaspyrnukeppni.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool.
Mynd: Getty Images
Stephanie Frappart varð í gær fyrsta konan til þess að dæma stóran úrslitaleik karla hjá UEFA. Hún og hennar teymi þóttu standa sig mjög vel.

Hún var með flautuna þegar Liverpool vann Chelsea í vítaspyrnukeppni í Istanbúl í leiknum um Ofurbikar Evrópu. Staðan eftir framlengingu var 2-2 og því var farið í vítakeppni.

Frappart er 35 ára gömul og dæmdi hún úrslitaleikinn á HM kvenna í sumar, þar sem Bandaríkin höfðu betur gegn Hollandi.

Hún þykir einstaklega góður dómari og dæmdi sinn fyrsta karlaleik í efstu deild í Frakklandi er Amiens mætti Strasbourg síðasta apríl.

Frappart fékk erfiðan leik í gær. Hún þurfti að tækla VAR, vítaspyrnuákvörðun og tuð í leikmönnum. Hún fékk hrós frá sérfræðingum fyrir sína frammistöðu.

„Mér finnst hún hafa átt frábæran leik. Hún hefur verið mjög góð í erfiðum leik," sagði Joe Cole á BT Sport. „Hún leyfði leiknum að fljóta og var með flestar stóru ákvarðanirnar réttar."

Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, var ánægður að sjá í hversu góðu líkamlegu standi hún var í, í rakanum í Istanbúl. „Þetta fór líka í framlengingu. Hraðinn er meiri en í kvennaboltanum, en hún hélt í við þá og gerði frábærlega."

Stærsta ákvörðunin sem Frappart tók var að gefa Chelsea vítaspyrnu í framlengingunni þegar Tammy Abraham féll í teignum eftir viðskipti við spænska markvörðinn Adrian.

Litið var á atvikið með VAR og engin augljós mistök sjáanleg og vítaspyrnan því dæmd. Adrian viðurkenndi eftir leik að hann hefði snert Abraham, en hann hefði verið að leitast eftir því.

Dómur Clattenburg
Mark Clattenburg, sem var fyrir nokkrum árum einn besti dómari ensku úrvalsdeildarinnar, var mjög hrifinn af frammistöðu Frappart í leiknum í gær.

„Þetta var í rauninni leikur í ensku úrvalsdeildinni, það voru lið úr ensku úrvalsdeildinni að mætast, og það sem hreif mig hvað mest við frammistöðu hennar var hvernig hún aðlagaðist hraðanum og líkamlega hluta leiksins," segir Clattenburg á Daily Mail.

„Frappart hefur dæmt karlaleiki í Frakklandi, en það var kraftur í þessum leik eins og er í leikjum í ensku úrvalsdeildinni."

„Þetta var í fyrsta sinn sem kona dæmir stóran úrslitaleik hjá körlum, en ef sú saga hefði ekki verið, þá hefði engin tekið eftir því að kona væri að dæma leikinn. Jafnvel þó Chelsea hafi fengið umdeilda vítaspyrnu í framlengingunni."

„Frá sjónarhorni Frappart, þá gæti hún hafa haldið að Adrian hafi tekið Abraham niður með fæti sínum, en frá öðru sjónarhorni sést lítil snerting. Að mínu mati hefði ákvörðunin átt að vera markspyrna. Sumir spyrja kannski hvers vegna VAR skarst ekki í leikinn. Þetta voru ekki augljós mistök að mati VAR."

Clattenburg segir að Frappart og teymi hennar hafi sýnt það að konur geti dæmt leiki hjá körlum og kyn skipti ekki máli þegar kemur að dómgæslu.

Vítaspyrnuvarsla Adrian
Liverpool vann leikinn í vítaspyrnukeppni og var það Adrian sem varði síðustu vítaspyrnuna frá Tammy Abraham, sóknarmanni Chelsea.

Það fór mynd í dreifingu á Twitter eftir leikinn í gærkvöldi þar sem Adrian sést með báðar fætur af línunni áður en Abraham spyrnir boltanum, en annar fóturinn verður að vera á línunni þegar boltanum er spyrnt.

Það var meðal annars hart tekið á þessum á HM kvenna í sumar og ófáar vítaspyrnur endurteknar vegna þess. Eftir að þetta vakti svo mikla athygli á HM kvenna í sumar var ákveðið að VAR myndi ekki skoða stöðu markvarða í ensku úrvalsdeildinni í vetur, en leikurinn í kvöld var auðvitað ekki í ensku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt Dale Johnson hjá ESPN þá sagði Roberto Rosetti, yfirmaður dómaramála hjá UEFA, fyrir leikinn að VAR yrði bara notað í vítaspyrnum ef um augljóst brot á reglunum yrði að ræða. Þetta var greinilega metið sem svo að þetta hefði ekki verið augljóst brot.

Klopp var mjög sáttur
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var mjög sáttur með Frappart og hennar teymi. Hann sagði að Liverpool hefði unnið leikinn 6-0 ef liðið hefði staðið sig eins og hún gerði.

„Ég sagði við dómarateymið eftir leikinn að ef við hefðum staðið okkur eins og þau, þá hefðum við unnið leikinn 6-0," sagði Klopp á blaðamannafundi.

„Þetta er algjörlega mín skoðun. Frammistaða þeirra var mögnuð."

„Ég sagði líka við hana að ég væri ekki viss með vítaspyrnudóminn, en það skipti ekki máli lengur."

„Það var gríðarlega pressa á þeim fyrir leikinn þar sem þetta var sögulegur atburður. Að standa með sjálfri þér, halda ró og gera það sem þú gerir vanalega, ákveða mikilvæga hluti í erfiðum leik. Ég gæti ekki borið meiri virðingu fyrir þeim."

Það var brotið blað í sögunni í gær og Stephanie Frappart og hennar teymi sannaði sig á stóra sviðinu.




Athugasemdir
banner
banner
banner