Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 18. september 2019 10:01
Magnús Már Einarsson
Hver er 19 ára Norðmaðurinn sem er að slá í gegn?
Næsta stjórstjarna?
Næsta stjórstjarna?
Mynd: Getty Images
Erling Braut Haaland fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Erling Braut Haaland fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Erling Braut Haaland, 19 ára framherji Salzburg í Austurrík, stal senunni þegar riðlakeppni Meistaradeildarinnar hófst í gær. Haaland skoraði þrennu í fyrri hálfleik í 6-2 sigri á Genk og varð þar með fyrsti leikmaðurinn til að skora þrennu í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar síðan Wayne Rooney gerði það með Manchester United árið 2004.

Haaland hefur skorað 17 mörk í níu leikjum með Salzburg á tímabilinu og í sumar varð hann markahæstur á HM U20 ára liða þar sem hann skoraði meðal annars níu mörk í leik gegn Hondúras.

The Guardian fjallar um Haaland í dag og leið hans í Meistaradeildina. Haaland kom til Molde í janúar 2017 frá Bryne en þar hafði hann spilað sextán leiki í B-deildinni í Noregi 16 ára gamall án þess þó að ná að skora.

„Á þessu ári hef ég einungis vaxið um fimm sentimetra," sagði Haaland í viðtali í nóvember 2017, þá 17 ára gamall. „Á síðasta ári náði ég að vaxa um 11-12 sentimetra," bætti Haaland við.

Tók stakkaskiptum hjá Molde
Haaland er í dag 194 cm á hæð og gríðarlega sterkur líkamlega en líkami hans tók stakkaskiptum hjá Molde.

„Hann hlýtur að hafa bætt á sig 10-12 kílóum síðan hann kom hingað í byrjun árs. Þetta eru allt vöðvar - og mikið af sjálfstrausti," sagði Ole Gunnar Solskjær þáverandi þjálfari Molde.

Haaland skoraði fjögur mörk í tuttugu leikjum með Molde árið 2017 og í fyrra skoraði hann 12 mörk í 25 leikjum. Þar á meðal skoraði hann fernu gegn toppliði Brann í júlí. Brann hafði fengið á sig fimm mörk í fjórtán leikjum áður en Haaland mætti og skoraði fjögur mörk gegn liðinu.

Valdi Salzburg frekar en Juventus
Í janúar á þessu ári kepyti Salzburg síðan Haaland í sínar raðir á átta milljónir punda. Juventus og Bayer Leverkusen vildu líka fá Haaland en hann valdi að fara til Austurríkis.

„Ég var auðvitað upp með mér yfir áhuga Juventus en mér fannst of snemmt að fara þangað. Salzburg var félagið sem hentaði mér best og það félag sem vildi mig mest. Það eru meiri líkur á að fá að spila þar," sagði Haaland eftir félagaskiptin.

Haaland hefur heldur betur fengið að spila hjá Salzburg enda fer hann ekki inn á fótboltavöll þessa dagana án þess að skora mörk. Hann segir að draumurinn sé að verða besti leikmaður í heimi.

„Það er draumur minn já en það er draumur sem milljón aðrir leikmenn eiga í heiminum. Fyrst vil ég verða betri en faðir minn var og hann á 181 leik að baki í ensku úrvalsdeildinni. Það er eitt markmið: að ná fleiri leikjum en hann."

Breytti nafni sínu til að gera það alþjóðlegra
Faðir Erling Braut Haaland er Alf-Inge Håland sem spilaði meðal annars með Leeds og Manchester City á ferli sínum. Erling Braut fæddist í Leeds þegar hann spilaði þar og það er uppáhaldslið hans í Englandi.

Alf-Inge varð að leggja skóna á hilluna eftir hrikalega tæklingu frá Roy Keane árið 2003 en hann fylgist nú spenntur með syni sínum.

Ofurumboðsmaðurinn Mino Raiola er með Erling Braut Haaland á sínum snærum og leikmaðurinn virðist sjálfur vita að hann gæti orðið einn sá besti í heimi. Hann breytti til að mynda nafni sínu úr Håland í Haaland til að gera það alþjóðlegra. „Einu skrefi á undan," sagði hinn 19 ára gamli Erling Braut Haaland brosandi þegar hann var spurður út í nafnabreytinguna.

Smelltu hér til að lesa greinina í heild hjá The Guardian

Athugasemdir
banner
banner
banner