Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   lau 07. desember 2019 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Milner: Lífið ekki eins skemmtilegt án Origi
Milner og Origi.
Milner og Origi.
Mynd: Getty Images
Origi með Meistaradeildarbikarinn.
Origi með Meistaradeildarbikarinn.
Mynd: Getty Images
Í nýrri bók sem ber heitið Ask A Footballer svarar James Milner spurningum, meðal annars um samherja sinn hjá Liverpool, sóknarmanninn Divock Origi.

Origi var mikilvægur er Liverpool vann Meistaradeildina á síðasta tímabili, hann skoraði tvennu í 4-0 sigri á Barcelona í undanúrslitunum og gerði seinna markið í 2-0 sigri á Tottenham í úrslitaleiknum.

Milner var spurður: „Hvernig væri líf þitt ef þú hefðir aldrei hitt Origi?"

„Haha. Ég velti því oft fyrir mér," sagði Milner.

„Hvernig væri líf allra án Divock Origi? Hefðum við unnið Meistaradeildina? Mögulega ekki. Framlag hans gegn Barcelona og Tottenham var gríðarlega mikilvægt. Allir leikmenn gerðu sitt, og ég vil helst ekki taka einhvern einn leikmann fyrir, en við vorum allir hæstánægðir fyrir hönd Div."

„Alltaf þegar við þurfum á stóru marki að halda á síðasta tímabili, þá var hann mættur til að skora það."

„Í hópnum okkar þá finnurðu líklega ekki tvo eins ólíka persónuleika og mig og Div. Við erum algjörar andstæður."

„Þið vitið hvernig ég er. Div, hins vegar er svo afslappaður. Þegar það er liðsfundur, þá erum við flestir mættir nokkru áður en hann byrjar. Hann er alltaf síðastur til að mæta - aldrei seinn, eða mjög sjaldan, en aldrei meira en 30 sekúndum áður en fundurinn byrjar."

„Það eru tvær hliðar á honum. Hann er mjög gáfaður og talar fjögur tungumál, og þú getur séð það hversu einbeittur og ákveðinn hann er með því hvernig hann hefur komist aftur inn í liðið hjá Liverpool."

„En utan vallar er hann svo ótrúlega afslappaður. Ef einhver skilur eitthvað eftir í flugvélinni eða í rútunni, þá er það alltaf Divock."

„Hvernig væri líf mitt ef ég hefði aldrei hitt hann? Líklega ekki eins skemmtilegt."

„Það hjálpar mér að slaka á að hitta hann. Hvernig get ég verið stressaður ef þessi gæi er bara fljótandi á plánetunni Origi, ofur-afslappaður, brosandi og að skilja eigur sínar eftir einhvers staðar?"

„Stundum þegar þú talar við hann í búningsklefanum, þá veistu ekki hvort að hann sé að hlusta. Man hann hvað stjórinn hefur verið að segja við okkur alla vikuna? Veit hann við hverja við erum að spila í dag? Svo kemur hann inn á í stórum leik með fullkomna frammistöðu inn af bekknum - og þú hugsar með þér, 'já hann var að hlusta eftir allt saman'."

„Það er eitt sem ég á eftir að spyrja Div að. Manstu eftir þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Everton í grannaslagnum í desember á síðasta ári? Af hverju flýtti hann sér að ná í boltann og hlaupa til baka á miðlínuna? Ég trúi því í alvöru að hann hafi haldið að við höfum þurft annað mark. Það myndi ekki koma mér neitt á óvart. Ég skal spyrja hann, ég vona að hann muni eftir því."


Athugasemdir
banner
banner
banner