sun 08. desember 2019 15:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þýskaland: Guðlaugur Victor fékk beint rautt spjald
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Mirko Kappes
Guðlaugur Victor Pálsson fékk að líta beint rautt spjald þegar Darmstadt gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Wehen í þýsku B-deildinni.

Guðlaugur Victor var að venju í byrjunarliði Darmstadt, en á 76. mínútu var honum vikið af velli er hann steig á ökkla andstæðings. Hann fékk fyrst gult spjald, en svo blandaði VAR sér í málið og landsliðsmaðurinn íslenski fékk rautt.

Sem betur fer fyrir Guðlaug Victor þá náði Wehen ekki að nýta sér liðsmuninn á þeim tíma sem var eftir af leiknum. Lokatölur 0-0 og er Darmstadt í 13. sæti með 19 stig.

Rúrik Gíslason var ekki í leikmannahópi Sandhausen sem gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Dynamo Dresden. Sandhausen er í áttunda sæti með 22 stig.

Sandra María í sigurliði - Wolfsburg á toppnum
Sandra María Jessen var í byrjunarliði Bayer Leverkusen sem vann 2-0 sigur á SGS Essen í úrvalsdeild kvenna í Þýskalandi.

Þetta er fjórði sigur Leverkusen á tímabilinu, en liðið er í níunda sæti af 12 liðum með 12 stig.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Wolfsburg sem vann 4-0 útisigur á SC Sand. Sara hafði spilað alla deildarleiki Wolfsburg fyrir leikinn í dag og skorað fimm mörk í þeim.

Danska landsliðskonan Pernille Harder fór á kostum í liði Wolfsburg og skoraði þrennu.

Wolfsburg er á toppi deildarinnar með 34 stig eftir 12 leiki. Liðið hefur unnið 11 af leikjum sínum og gert eitt jafntefli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner