Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 07. desember 2007 12:17
Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin Ólafsson hættur hjá FH
Óvíst hvort hann spili knattspyrnu áfram
Sigurvin Ólafsson í leik með FH í sumar.
Sigurvin Ólafsson í leik með FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin í lokaumferð Landsbankadeildarinnar í sumar er FH mætti Víkingi.
Sigurvin í lokaumferð Landsbankadeildarinnar í sumar er FH mætti Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Miðjumaðurinn Sigurvin Ólafsson er hættur hjá bikarmeisturum FH og er ekki búinn að ákveða hvort hann muni leika knattspyrnu á næstu leiktíð. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í dag.

,,Ég ætla bara að taka mér góða pásu," sagði Sigurvin í samtali við Fótbolta.net í dag og aðspurður hvort hann spili knattspyrnu næsta sumar bætti hann við: ,,Það þarf ekkert að vera en það gæti líka alveg gerst. Ég ætla bara að sjá til því þannig séð hef ég alveg nægan tíma, þetta byrjar ekki fyrr en í maí."

,,Ég er bara búinn að missa aðeins áhugann á þessu og er að bíða eftir að hann komi aftur. Það er mikil vinna og tími sem fer í þetta og það eru komin önnur atriði í lífi mínu sem þurfa að fá smá forgang. Bæði starf og fjölskylda. Ég er lögfræðingur og það er nóg að gera þar."

Sigurvin sem er Vestmannaeyingur hefur leikið með Fram, KR, ÍBV og FH hér á landi og hefur orðið Íslandsmeistari með þremur síðustu liðunum. En sér hann fram á að spila í efstu deild áfram ef hann heldur áfram?

,,Það er allt mögulegt," svaraði Sigurvin. ,,Ef ég verð duglegur að halda mér í formi þá get ég alveg spilað áfram í efstu deild en ég ætla ekki að spila í efstu deild ef ég lít út eins og jólasveinn á vellinum. Þetta kemur bara allt í ljós, ég bíð bara rólegur."

Sigurvin sem er 31 árs gamall kom til FH fyrir tímabilið 2006 frá KR og á tveimur tímabilum spilaði hann 23 leiki með liðinu og skoraði í þeim fjögur mörk. Við spurðum hann afhverju hann hafi tekið ákvörðun um að hætta hjá FH.

,,Þeir geta náttúrulega ekki beðið endalaust," svaraði hann. ,,Ég vil vera heiðarlegur við FH-inga, þeir eru topplið og með topp mannskap og þeir geta ekki beðið endalaust eftir að ég ákveði mig eða fái aftur áhugann á þessu."

,,Samningurinn rennur út í þessum mánuði og þeir buðu mér nýjan samning sem ég gat ekki með góðu móti skrifað undir því það hefði hreinlega verið óheiðarlegt. Að skrifa undir eitthvað og lofa sig í einhverja vinnu sem maður hefur svo ekki áhuga á."


,,Ég skil mjög sáttur við FH og þeir vonandi sáttir við mig. Það er ekki hægt að segja annað, það komu fullt af bikurum, Íslandsmeistaratitill, bikarmeistaratitill, tveir deildabikarmeistarar og áfram í Evrópukeppninni tvisvar. Þetta var ævintýri sem var skemmtilegt."

Sigurvin verður samningslaus við FH nú um áramótin og því hafa félög mátt hafa samband við hann síðan í haust. ,,Það er eitthvað búið að hringja en ég hef alltaf ýtt þessu frá mér því ég er ekki reiðubúinn að taka neina ákvörðun. Ég mun gera það áfram. Ég sé til með hækkandi sól hvort ég get farið í eitthvað annað lið," sagði hann.

Við spurðum hann að lokum hvort staðan myndi ekki breytast fljótt þegar grasið fer að verða grænt í vor og hann sagðist enn bíða eftir að fá fiðringinn.

,,Þetta gerist alltaf á haustin hjá manni að maður nennir ekki í fótbolta eftir að hafa verið að þessu í tíu mánuði en svo fær maður yfirleitt fiðringinn aftur í nóvember-desember. Hann er bara ekki kominn ennþá hjá mér en það getur vel verið að hann komi aftur í febrúar-mars. Þá kannski geri ég eitthvað, en ég get ekki skrifað uppá og lofað mér í vinnu eins og staðan er núna svo ég varð að hafna samningi við FH."
Athugasemdir
banner
banner
banner