Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 12. maí 2008 07:00
Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbolta.net í Landsbankadeild kvenna - 1.sæti
Hólmfríður Magnúsdóttir
Hólmfríður Magnúsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Edda Garðarsdóttir
Edda Garðarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ómarsdóttir
Katrín Ómarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bikarmeistarar KR
Bikarmeistarar KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að KR verði Íslandsmeistarar í sumar. Átta sérfræðingar spá í deildina fyrir okkur þetta árið en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 10 stig, annað sæti 9 og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. KR fékk 77 stig út úr þessu.

Sérfræðingarnir eru: Sigurður Ragnar Eyjólfsson, Ingibjörg Hinriksdóttir, Guðrún Inga Sívertsen, Kjartan Daníelsson, Kristrún Lilja Daðadóttir, Íris Björk Eysteinsdóttir, Ólafur Þór Guðbjörnsson og Haraldur Magnússon

Spáin:
1. KR - 77 stig
2. Valur - 75 stig
3. Breiðablik - 64 stig
4. Keflavík - 50 stig
5. Stjarnan - 45 stig
6. Fylkir - 38 stig
7. Þór/KA - 37 stig
8. Afturelding - 22 stig
9. HK/Víkingur - 18 stig
10. Fjölnir - 14 stig

1.sæti - KR

Búningur: svört og hvít treyja, svartar stuttbuxur og hvítir sokkar
Heimasíða:http://www.kr.is
Þjálfari: Helena Ólafsdóttir

KR stúlkum er spáð Íslandsmeistaratitlinum að mati sérfræðinga Fótbolti.net en þær fengu alls 77 stig, tveimur fleiri en núverandi Íslandsmeistarar Vals.
KR-ingar endurheimtu Guðrúni Sóleyju Gunnarsdóttur fyrir tímabilið frá Breiðabliki en hún er uppalin KR-ingur en spilaði með liði Breiðabliks tímabilin 2005-2007.

María Björg Ágústdóttir markvörður hefur tekið upp hanskana að nýju og spilar með liðinu í sumar. Það er mikill liðstyrkur fyrir KR en María vann sér nýlega inn sæti í A-landsliðshóp Íslands. Auk Maríu hafa KR ingar aðalmarkvörð U19 í sínum röðum Írisi Dögg Gunnarsdóttur en hún var aðalmarkvörður liðsins í fyrra. Markvarðastaðan verður því ekki vandamál hjá KR í sumar.

Markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafi, Olga Færseth hefur ákveðið að spila með liðinu í sumar en það var ekki ákveðið fyrr en mjög nýlega. Þetta er gríðarlega mikill styrkur fyrir liðið enda er Olga einn allra besti framherji í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu. Olga var fyrirliði liðsins í fyrra en Hrefna Jóhannesdóttir tók við fyrirliðabandinu í vetur.

Katrín Ómarsdóttir er komin á fullt á ný eftir erfið ökklameiðsli sem hún lenti í undir lok síðasta tímabils. Ef Katrín nær að blómstra út í sumar getur hún auðveldlega skipað sér sess sem einn allra besti miðjumaður landsins. Hólmfríður Magnúsdóttir sem var kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum og þjálfurum í fyrra er einnig komin af stað eftir meiðsli sem hún varð fyrir í leik á móti Fylki í Reykjavíkurmótinu í vetur.

Edda Garðarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir hafa báðar átt í smávægilegum meiðslum en reiknað er með að þær verði báðar 100% tilbúnar í slaginn í fyrsta leik.
KR ingar hafa að skipa gríðarlega sterkum einstaklingum en í síðasta A-landsliðshópi áttu þær alls 7 leikmenn.
KR hefur átt gott undirbúningstímabil og urðu t.a.m Lengjubikarsmeistarar eftir að hafa gjörsigrað Íslandsmeistara Vals 4-0 í úrslitaleik mótsins.

Þjálfari KR er Helena Ólafsdóttir en hún gerði KR að Bikarmeisturum á síðasta ári og hefur margoft orðið Íslandsmeistari sem leikmaður. Helena er reyndur þjálfari og hefur unnið bikarmeistaratitla bæði með KR og Val. Hún hefur einnig verið A-landsliðsþjálfari Íslands eins og flestir muna eftir. Henni þyrstir væntanlega í að gera KR að Íslandsmeisturum sem þjálfari en KR varð síðast meistari árið 2003, það tímabil var Helena við stjórnvölin hjá Val. KR hefur allt sem til þarf til að sigra deildina í ár eins og Fótbolti.net spáir fyrir um og það er því í þeirra höndum að toppa á réttum tíma.

Styrkleikar: KR hefur frábæra einstaklinga innanborðs. Leikmenn eins og Katrín Ómarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir geta auðveldlega klárað leikina uppá eigin spýtur. Þær hafa einn leikreyndasta miðjumann Íslands, Eddu Garðarsdóttur sem stjórnar miðjunni og landsliðsmiðvörðinn Guðrúnu Sóley í vörninni. Ólína G. Viðarsdóttir hefur einnig verið að spila frábærlega fyrir liðið í vetur bæði sem kantmaður og bakvörður.

Veikleikar: Olga er komin aftur en hefur ekki verið að æfa í vetur, það er því spurning hvernig formi hún verður í þegar flautað verður til leiks. Hólmfríður Magnúsdóttir sem var valin best á KSÍ lokahófinu hefur verið meidd í vetur og ekki enn spilað heilan leik í ár. Annars er erfitt að finna veika bletti á liðinu og liðið hefur alla burði til að landa Íslandsmeistaratitlinum eftirsótta.

Lykilleikmenn:
Hólmfríður Magnúsdóttir var útnefnd besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra. Er gríðarlega sterkur kantmaður sem skorar mikið af mörkum en hún skoraði 15 mörk í 13 leikjum í fyrra. Hún hefur einnig lagt upp fjöldan allan af mörkum fyrir liðsfélaga sína en hún hefur stórbætt fyrirgjafir sínar. Það er algjört lykilatriði fyrir KR að Hólmfríður haldi áfram á sömu braut.

Katrín Ómarsdóttir: Tæknilega einn besti leikmaður á Íslandi. Hún getur oft leikið sér af andstæðingum sínum þegar hún dettur í gírinn og hefur bætt sig stórkostlega í skallaboltum. Hún er klárlega “x-factorinn” í KR liðinu og áhorfendur geta mætt á völlinn bara til að fylgjast með henni.

Edda Garðarsdóttir: er ein leikjahæsta A-landsliðskona frá upphafi og er einn leikreyndasti leikmaður í Landsbankadeild kvenna. Hún er líkamlega sterkur leikmaður sem spilar á miðjunni og tapar varla návígi. Hún er sterkur skallamaður með góðan hægri fót.

Aðrir leikmenn sem verður gaman að fylgjast með: Ólína G. Viðarsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og María B.Ágústdóttir.

Komnar. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir frá Breiðabliki.
Farnar: Berglind Magnúsdóttir í Þór/KA (lán) og Kristín Jónsdóttir í ÍR

Leikmenn KR 2008
1 María Björg Ágústsdóttir (1982)
2 Guðrún Sóley Gunnarsdóttir (1981)
3 Olga Færseth(1975)
4 Edda Garðarsdóttir (1979)
5 Guðný Guðleif Einarsdóttir (1984)
6 Freyja Viðarsdóttir(1993)
7 Þórunn Helga Jónsdóttir (1984)
8 Fjóla Dröfn Friðriksdóttir (1981)
9 Lilja Dögg Valþórsdóttir (1982)
10 Hrefna Huld Jóhannesdóttir (1980)
11 Embla Sigríður Grétarsdóttir (1982)
13 Margrét Þórólfsdóttir (1989)
14 Anna Björk Kristjánsdóttir (1989)
16 Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir (1989)
17 Dagmar Mýrdal Gunnarsdóttir (1990)
18 Íris Dögg Gunnarsdóttir (1989)
19 Ólöf Gerður Jónsdóttir Ísberg (1989)
20 Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir (1982)
21 Katrín Ómarsdóttir (1987)
22 Agnes Þóra Árnadóttir (1988)
23 Hólmfríður Magnúsdóttir (1984)
30 Katrín Ásbjörnsdóttir (1992)
Athugasemdir
banner
banner
banner