Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 10. september 2008 15:24
Hafliði Breiðfjörð
Helena Ólafsdóttir: Farin að þrá að taka sumarfrí
Helena Ólafsdóttir.
Helena Ólafsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena ásamt Guðlaugu Jónsdóttur sem aðstoðaði hana í sumar.
Helena ásamt Guðlaugu Jónsdóttur sem aðstoðaði hana í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR tilkynnti í gærkvöld að Helena Ólafsdóttir myndi hætta sem þjálfari liðsins að tímabilinu loknu. Helena sagði í samtali við Fótbolta.net í dag að hún stefni ekki á að taka við öðru liði í bili heldur ætli hún að taka sér frí frá boltanum og snúa sér að öðru.

,,Ég var búið að ákveða fyrir nokkru að taka mér frí frá þessu öllu. Ég er búin að þjálfa og lifa og hrærast í þessu mjög lengi og langar að prófa að gera aðra hluti. Þetta er eingöngu komið frá mér sjálfri og spurning um að líta aðeins upp og prófa eitthvað nýtt," sagði Helena í samtali við Fótbolta.net í dag um ákvörðun sína og útilokar að taka við öðru liði eins og staðan er núna.

,,Eins og staðan er mun ég ekki fara í annað lið. Ég var að mennta mig í einkaþjálfun í fyrravetur og ætla aðeins að starfa við það ásamt minni vinnu. Ég held að maður hafi alltaf gott af því að staldra aðeins við og sjá. Svo getur vel verið að ég fari í þetta aftur," sagði hún.

Það hefur reynst mörgum fótboltamanninum erfitt að kúpla sig alveg frá því að starfa við boltann, en við spurðum Helenu hvort ekki verði erfitt að hætta því bakterían geri alltaf var við sig aftur.

,,Jú mér skilst það, ég hef aldrei stoppað þannig lagað svo ég held að það geti vel verið. En stundum lendir maður á þeim tímapunkti að það er gott að prófa að breyta til. Kannski er ég á honum núna. Ég er sátt og held að það sé gott fyrir KR-liðið að fá nýtt blóð inn. Þetta er hagstætt fyrir alla en að sjálfsögðu kveð ég þetta lið með söknuði því það er búið að vera gaman að þjálfa þær."

Helena tilkynnti leikmönnum sínum um ákvörðun sína á æfingu liðsins í gærkvöld, hvernig var því tekið, voru þær ósáttar við að hún hafi ákveðið að hætta? ,,Ég gat ekki fundið að þær væru ósáttar, en veit ekki hvort þetta hafi komið þeim á óvart," sagði Helena.

,,Þær hafa alveg áttað sig á því að ég myndi hugsa málið, þetta er ekkert erfiður viðskilnaður, ég er sátt og held að þær séu það líka. Án þess að vita það."

Helena lætur þó ekki af störfum strax því hún mun stýra liði KR í tveimur leikjum í viðbót. Annars vegar er um að ræða úrslitaleik VISA-bikarsins gegn Val og hinsvegar lokaleikurinn í Landsbankadeildini á laugardag er KR sækir Aftureldingu heim. KR á stjarnfræðilega möguleika á að vinna Íslandsmeistaratitilinn en þarf að vinna Aftureldingu með allavega 20 marka mun og treysta á að Valur tapi sínum leik.

,,Það er ekki mikill möguleiki núna en við eigum bikarleikinn eftir og ég er ekki hætt fyrr en þessir tveir leikir eru búnir," sagði hún. ,,Það er stærsti leikur sumarsins eftir og mig langaði mikið að kveðja liðið á góðan hátt. Við mætum einbeittar og klárar í það verkefni. Við ætlum okkur að verja okkar titil þar, það er markmiðið."

Fyrir viðureign KR gegn Val í Landsbankadeildinni í ágúst skoruðu leikmenn KR á Helenu og aðstoðarkonur hennar að synda í sjónum ef liðinu tækist að vinna. Það gekk eftir, KR vann leikinn og Helana fór í sjóinn. En er komin einhver áskorun núna?

,,Nei, en þær sögðu reyndar í gær eftir að ég tilkynnti þeim þetta að ég þyrfti að taka aldeilis áskorun eftir bikarleikinn. Þær verða þá bara að koma upp með áskorun, en ég hef ekki fengið að heyra hana ennþá. Ég læt mig flakka í allt sem kemur, það þýðir ekkert annað," sagði hún.

Að bikarleiknum loknum mun hún svo snúa sér að öðrum verkefnum ótengdum fótboltanum í fyrsta sinn frá því knattspyrnuferillinn hófst.

,,Ég er byrjuð að kenna og ætla að vera í því í vetur með einkaþjálfuninni. Ég ætla að prófa það í eitt ár svoleiðis og eiga matmálstíma og sumarfrí og svona," sagði Helena. ,,Ég ætla að hafa það þannig á næsta ári eða næstu árum. Ég hlakka svolítið til að geta mætt á völlinn án þess að fara út í allar pælingar um hvernig liðin spila og annað. Ég vil koma bara frí og frjáls og fara svo kannski að prófa golfið. Ég ætla að prófa allavega að njóta þess að eiga frí."

,,Þetta er í fyrsta skipti sem ég er ekki í fótboltanum yfir sumar, ég hef aldrei verið fríi á sumrin. Ég er búin að þjálfa meistaraflokk núna í sex ár og var að spila þar áður svo ég hef aldrei verið frjáls. Þetta er í fyrsta sinn svoleiðis og það er þannig að ég er farin að þrá að prófa það," sagði Helena en að lokum spurðum við hana hvort hún óttist ekki að það myndist smá tómarúm við þetta.

,,Það er eiginlega strax komið þegar ég tek þessa ákvörðun en ég verð allavega að prófa. Þá get ég allavega sagt að ég hafi reynt það einhvern tíma. Svo er mér sagt að þegar ég er að nálgast fertugt þá fái maður stundum nóg, kannski er það þannig."
Athugasemdir
banner
banner
banner