Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   lau 19. september 2009 16:42
Fótbolti.net
Umfjöllun 1.deild: Tíu Leiknismenn lögðu fallna Mosfellinga
Viktor Bjarnason skrifar úr Breiðholti
Einar Örn Einarsson skoraði annað mark Leiknis.
Einar Örn Einarsson skoraði annað mark Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óttar Bjarni Guðmundsson og Axel Ingi Magnússon eigast við.
Óttar Bjarni Guðmundsson og Axel Ingi Magnússon eigast við.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rannver Sigurjónsson skoraði fyrra mark Aftureldingar.
Rannver Sigurjónsson skoraði fyrra mark Aftureldingar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknir - Afturelding 3-2
0-1 Rannver Sigurjónsson (32.)
1-1 Aron Fuego Daníelsson (42.)
2-1 Einar Örn Einarsson (60.)
3-1 Halldór Kristinn Halldórsson (83.)
3-2 John Andrews (90.)
Rautt spjald: Gunnar Einarsson (Leikni 51.)

Leiknismenn ljúka keppni í sjöunda sæti 1. deildarinnar þetta tímabilið en þeir lögðu Aftureldingu 3-2 í dag. Mosfellingar voru fallnir fyrir leikinn en Leiknismenn léku einum manni fleiri nær allan seinni hálfleikinn eftir að Gunnar Einarsson fékk að líta rauða spjaldið.

Það var ekki að miklu að keppa fyrir bæði lið og sást það bersýnilega á fyrri hálfleiknum sem var tíðindalítill. Liðin virkuðu áhugalaus og fátt var um fína drætti. Halldór Kristinn Halldórsson, fyrirliði Leiknis, fékk tvö ágætis skallafæri áður en gestirnir komust yfir eftir hálftíma leik.

Milan Djurovic fékk þá góða sendingu innfyrir en var lengi að athafna sig og virtist sóknin vera að renna út í sandinn. Þá barst knötturinn á Rannver Sigurjónsson sem náði frábæru skoti á markið, óverjandi fyrir Eyjólf Tómasson í marki Leiknis. Eftir þetta mark fengu Mosfellingar nokkur fín færi og höfðu með smá heppni getað náð tveggja marka forystu.

Skömmu fyrir leikhlé jöfnuðu Leiknismenn í 1-1 eftir laglega sókn. Kristján Páll Jónsson fékk góða sendingu og var með boltann við endalínuna, renndi honum síðan út á Aron Fuego Daníelsson sem rak smiðshöggið laglega.

Staðan var jöfn þegar Gunnar Sverrir Gunnarsson flautaði til hálfleiks. Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri. Strax í upphafi hans fékk Fannar Þór Arnarsson sannkallað dauðafæri til að koma heimamönnum yfir en fyrir opnu marki skaut hann í stöngina.

Á 51. mínútu gerðist svo umdeilt atvik. Greinilega var brotið á Kristjáni Páli Leiknismanni á vinstri kantinum en dómari leiksins dæmdi ekkert. Leiknismenn voru allt annað en sáttir. Ingvar Örn Gíslason aðstoðardómari kallaði síðan á Gunnar Sverri dómara og lét hann gefa Gunnari Einarssyni, varnarmanni og aðstoðarþjálfara Leiknis, beint rautt spjald.

Eitthvað sem Gunnar Einarsson sagði hefur farið mjög fyrir brjóstið á Ingvari Erni en þessi ákvörðun hans að láta reka Gunnar af velli féll vægast sagt í grýttan jarðveg hjá heimamönnum. Það að missa mann af velli virtist þó styrkja Leiknisliðið sem var mun betra og náði verðskuldað forystu eftir klukkutíma leik.

Aron Fuego tók þá aukaspyrnu sem hitti beint á kollinn á Einari Erni Einarssyni, betur þekktum sem Buxi, og skoraði hann fallegt skallamark. Leiknismenn héldu áfram að stjórna leiknum og á 83. mínútu skoruðu þeir annað skallamark eftir aukaspyrnu og komust í 3-1. Að þessu sinni skoraði Halldór Kristinn markið eftir aukaspyrnu frá Fannari.

Við þetta mark missti Leiknisliðið aðeins einbeitinguna og í uppbótartíma náði Afturelding að svara þegar varnarmaðurinn John Andrews skoraði með skalla eftir horn. Andrews fékk algjörlega frían skalla og þakkaði fyrir sig.

Úrslitin 3-2 fyrir Leikni en þetta var síðasti leikur Aftureldingar í fyrstu deild að sinni. Þá var þetta síðasti leikur liðsins undir stjórn Ólafs Ólafssonar sem hefur ákveðið að hætta með liðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner