Kevin De Bruyne og Varane til Saudi Arabíu - Solanke til West Ham - Chelsea vill Ramsdale frá Arsenal
Holland
1
0
Ísland
Stefanie van der Gragt '93 1-0
06.09.2022  -  18:45
Stadion Galgenwaard - Utrecht
Undankeppni HM kvenna
Aðstæður: Allt upp á tíu
Dómari: Rebecca Welch (England)
Áhorfendur: Um 16 þúsund
Byrjunarlið:
1. Daphne van Domselaar (m)
3. Stefanie van der Gragt
5. Lynn Wilms
6. Jill Roord ('77)
8. Sherida Spitse ('77)
9. Vivianne Miedema
10. Danielle van de Donk ('66)
13. Renate Jansen ('66)
14. Jackie Groenen
18. Kerstin Casparij
20. Dominique Janssen

Varamenn:
16. Lize Kop (m)
23. Barbara Lorsheyd (m)
2. Aniek Nouwen
4. Kika van Es
7. Kayleigh van Dooren
11. Victoria Pelova
12. Fenna Kalma ('66)
15. Caitlin Dijkstra
17. Romee Leuchter ('77)
19. Marisa Olislagers
21. Damaris Egurrola ('77)
22. Esmee Brugts ('66)

Liðsstjórn:
Andries Jonker (Þ)

Gul spjöld:

Rauð spjöld:
Leik lokið!
Holland fer beint á HM. Ísland fer í umspil. Ég á ekki orð.
94. mín
Sara Björk í teignum en nær ekki að koma sé í skotstöðu.
93. mín MARK!
Stefanie van der Gragt (Holland)
Stoðsending: Esmee Brugts
NEEEEEEEIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIII!!!!!!!!!!!

Skalli sem endar í fjærhorninu.


92. mín
Esmee Brugts með sendingu sem Sandra handsamar. Vá andrúmsloftið hérna á vellinum. Hollendingar blístra og blístra.
91. mín
Uppbótartíminn er að minnsta kosti 4 mínútur.

4 mínútur.
90. mín
Sandra kemur í veg fyrir að Holland fái horn. Handsamar boltann við endalínuna.
89. mín
Sending Hollands sem flýgur afturfyrir. Sandra að taka markspyrnu.
89. mín
Þvílík spenna. Jafntefli og Ísland hefur tryggt sér sæti á HM. Við erum örfáum mínútum frá HM sæti.
88. mín
Boltinn er á vallarhelmingi Hollands sem er rosa jákvætt.
88. mín
Sveindís að búa sig undir langt innkast.
87. mín
Stuðningsmenn Hollands eru orðnir óþreyjufullir og pirraðir. Blístra.
85. mín
21 marktilraun hjá Hollandi , 2 hjá Íslandi. Staðan er 0-0. Klukkan tifar. Það er áþreifanlegt stress í íslenska fjölmiðlahópnum hér á vellinum.
84. mín
Ber að hrósa innkomunni hjá Selmu Sól, komið inn með attitjúd og hugrekki.
83. mín
SANDRAAAAAAA!!!!!!! Ver frá Vivianne Miedema sem var í nokkuð þröngu færi. Þvílíkur leikur sem Sandra er að eiga.

Farið að rigna ansi hressilega núna.
82. mín
Hollenska leikmennirnir orðnir örvæntingarfullir og láta sig falla í teignum í þeirri von að fá víti. Sem betur fer er Rebecca Welch ekki að láta sig falla í gildruna.
80. mín
Inn:Alexandra Jóhannsdóttir (Ísland) Út:Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Ísland)
80. mín
Inn:Elín Metta Jensen (Ísland) Út:Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Ísland)
80. mín
Leikurinn stopp í smá tíma því Gunnhildur Yrsa þurfti aðhlynningu.

78. mín
Sara Björk missir boltann frá sér og Sandra ver. Holland fær horn og eftir hornspyrnuna kemur TILRAUN Í STÖNGINA! Við erum að lifa á lyginni hérna. Þetta er ótrúlegt.
77. mín
Inn:Romee Leuchter (Holland) Út:Jill Roord (Holland)
77. mín
Inn:Damaris Egurrola (Holland) Út:Sherida Spitse (Holland)
76. mín
Elín Metta Jensen að búa sig undir að koma inná.
Dauðafæri Sveindísar:

75. mín
Úfff, var að sjá færið hjá Sveindísi aftur í sjónvarpsútsendingunni og þetta var jafnvel enn meira dauðafæri en mér sýndist. Algjört skylduskorunarfæri.

73. mín
SVEINDÍS Í DAUÐAFÆRI EN HITTIR EKKI BOLTANN!!!!!

Gunnhildur Yrsa með fyrirgjöfina og Sveindís var við fjærstöngina en kiksar. Vááá... við fáum ekki betri færi en þetta. Úffff.
72. mín
Rosalega líður tíminn hægt. Markahrókurinn Fenna Kalma með skot, fer aðeins í varnarmann og svo í fangið á Söndru.
69. mín
Berglind á Selmu sem lendir síðan á markverðinum og fær tiltal.

66. mín
Inn:Esmee Brugts (Holland) Út:Renate Jansen (Holland)
66. mín
Inn:Fenna Kalma (Holland) Út:Danielle van de Donk (Holland)
66. mín
Holland að búa sig undir tvöfalda skiptingu. Ekki verið sami sóknarþungi og í fyrri hálfleik.
64. mín
Selma Sól með ágætis skottilraun eftir fínt spil Íslands. Loksins kom smá spilkafli. Daphne ver skot Selmu.
63. mín
Dominique Janssen fær tiltal. Fór í bakið á Gunnhildi Yrsu.
62. mín
Jill Roord með skot en það er ekkert sérstakt og framhjá.
62. mín

60. mín
Sveindís krækir í aukaspyrnu. Hún er sú eina sem er að veita okkur smá andrými af og til. Smá frí frá látlausum sóknum Hollands.
58. mín
Danielle van de Donk lætur sig falla í teignum og Holland heimtar víti. Þetta var ekki neitt.

56. mín
Sara fær boltann í kjölfarið á horninu en er dæmd brotleg í baráttunni við hollenskan varnarmann.
55. mín
Eina von okkar fram á við hefur verið að Sveindís búi eitthvað til. Nú var hún að krækja í hornspyrnu.
55. mín
Samkvæmt tölfræði UEFA er Holland búið að eiga 16 marktilraunir gegn einni íslenskri. Holland búið að fá 8 horn, Ísland 3.

52. mín


52. mín
Hreinsanirnar út úr vörninni eru nánast allar beint á hollenskan leikmann. Enn ein hornspyrnan sem heimakonur fá. Sara Björk nær að bægja hættunni frá.
50. mín
Holland með skalla á markið en Sandra ver! Jill Roord með þessa tilraun.
50. mín
Sherida Spitse með sendingu inn í teig. Holland vinnur hornspyrnu.
47. mín
Sveindís með langt innkast. Þetta endar í lúkunum á Daphne eftir smá flikk á leiðinni.
46. mín
Eins og staðan er núna er Ísland á leið á HM.... en ég er hræddur um að þetta verðir rosalega langur seinni hálfleikur.
46. mín
Seinni hálfleikur er farinn af stað
46. mín
Inn:Selma Sól Magnúsdóttir (Ísland) Út:Svava Rós Guðmundsdóttir (Ísland)
Þorsteinn gerir skiptingu í hálfleik.


45. mín
Hálfleikur
Þessi leikur hefur verið meiri steypan.

Hvernig Holland er ekki búið að skora er með hreinum ólíkindum.

Ef leikurinn heldur svona áfram þá er ekki fræðilegur möguleiki á að við sleppum frá tapi. Eitthvað verður undan að láta. Það þarf að finna svör í hálfleiknum.
45. mín
Sandra kýlir boltann frá eftir hornið og Ísland nær að koma honum frá... en bara í bili. Holland leggur upp í enn eina sóknina.
45. mín
Vivianne Miedema fer illa með vörn Íslands, kemst framhjá hverjum leikmanninum á fætur öðrum en þetta endar svo í hornspyrnu.
44. mín
ÞRIÐJA SINN SEM BOLTINN FER Í SLÁNA Á MARKI ÍSLANDS!!!

Sandra ver boltann upp í slána. Þetta er ótrúlegt. Algjörlega ótrúlegt.
44. mín
Úff stórhætta við mark Íslands eftir hornspyrnu. Vonandi lifum við þetta af til hálfleiks og hægt að leggja línurnar fyrir baráttuna í seinni hálfleik.
42. mín
Þarna! Sveindís að sýna lipur tilþrif, sendir inn í teiginn go þar á Gunnhildur Yrsa skot yfir. Fyrsta sókn Íslands í langan tíma.
40. mín
Við höfum lifað á lyginni. Langt síðan maður hefur séð leik með slíkum yfirburðum án þess að það komi mark. Við höfum lifað þessa pressu af. Vonandi náum við að tengja fleiri sendingar, ná skjálftanum burt og spýta í lófana.
37. mín
Holland fær aðra hornspyrnu, núna hinumegin.
37. mín
Hollenskt mark hefur legið í loftinu í skuggalega langan tíma núna. Holland fær hornspyrnu.
36. mín
Íslenska liðið hefur lítið náð að halda boltanum innan liðsins og því hefur Holland fengið hverja hættulega sóknina á fætur annarri. Erum að missa of mikið af seinni boltanum.
34. mín
Sherida Spitse með skot af löngu færi sem Sandra ver auðveldlega.
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
32. mín
Renate Jansen með fyrirgjöf sem er misheppnuð og Sandra nær að handsama.
31. mín
Það hefur verið ótrúleg pressa á íslenska markið, orrahríð síðustu mínútur. Ísland stálheppið að vera ekki lent undir svo sagt sé hreint út.

29. mín
AFTUR ÞVERSLÁIN!!!

Renate Jansen með skot í slá að þessu sinni. Það er með hreinum ólíkindum að Holland sé ekki búið að ná forystunni í þessum leik.
28. mín
HVERNIG FÓR HOLLAND AÐ ÞVÍ AÐ SKORA EKKI ÞARNA!!!!

Van de Donk í dauðaafæri. Sandra ver og svo nær Guðný að hreinsa frá á línu. Þessi bolti var hrikalega nálægt því að vera inni.
Okkar fólk með alvöru raddbönd.


26. mín
Svava Rós Guðmundsdóttir fær boltann í teignum en nær ekki alveg völdum á honum. Holland geysist upp í skyndisókn sem ekkert verður úr.
25. mín
SLÁIN!!!!!!!

Danielle van de Donk með skot eftir fyrirgjöf frá vinstri sem fer í ÞVERSLÁNA! HJÚKK!!! Jill Roord síðan með skalla sem Sandra nær að verja.
23. mín


22. mín
Guðný Árnadóttir kemst upp að endalínu en fyrirgjöf hennar endar í fangi Daphne markvarðar.
21. mín
Vivianne Miedema skallar yfir eftir fyrirgjöf Renate Jansen.


15. mín
Jackie Groenen með fyrirgjöf sem fer í Söru og afturfyrir. Fyrsta hornspyrna Hollands.
13. mín
Munda með hornspyrnuna en Daphne grípur fyrirgjöf hennar.
12. mín
Berglind með geggjaða sendingu á Sveindísi sem er í hættulegri stöðu en missir boltann of langt frá sér... ahhhh... Fær þó hornspyrnu.
11. mín
Jill Roord nær skoti á markið en Sandra vandanum vaxin og ver af öryggi.
10. mín
Welch dómari sleppir augljósri aukaspyrnu sem Ísland átti að fá, var að horfa á eitthvað annað. Holland fer upp í sókn og Jill Roord á skot í varnarmann.

Í þessum skrifuðu orðum taka áhorfendur vallarins bylgju. Íslensku stuðningsmennirnir að sjálfsögðu með.
9. mín
Fyrsta alvöru færi Hollands. Danielle van de Donk skallar boltann yfir eftir fyrirgjöf Vivianne Miedema.
8. mín
Sveindís með stórhættulega sendingu, Dagný og Svava bæði á eftir boltanum en Daphne í marki Hollands kemur út og nær að handsama boltann! Þetta var hættulegt!
7. mín
Samspil milli Mundu og Gunnhildar Yrsu á vinstri kantinum en missum boltann frá okkur.
4. mín
Áslaug Munda tók misheppnaða hornspyrnu, fór ofan á þaknetið.
3. mín
Glódís með langan bolta fram á Sveindísi sem ógnar og vinnur hornspyrnu. Ísland fær fyrsta horn leiksins. Vel gert.
1. mín
Lynn Wilms með fyrirgjöf inn í teiginn en íslenska liðið kemur boltanum frá.
1. mín
Leikur hafinn
Heimakonur skærappelsínugular hófu leikinn.

Fyrir leik


Stuðningsmenn Íslands í MIKLUM minnihluta hér í kvöld. En við hljótum samt að fá Víkingaklappið. Dóri Gylfa er á vellinum í handboltalandsliðstreyju.
Fyrir leik
Ljómandi fín stemning á vellinum. Liðin ganga hér inn og þjóðsöngvarnir eru næst á dagskrá!

Fyrir leik
Gummi var slá um sig með skemmtilegri staðreynd. Fimm af ellefu í byrjunarliði Íslands léku undir stjórn Þorsteins Halldórssonar hjá Breiðabliki.
Fyrir leik
Spennustigið er vonandi betur stillt hjá liði Íslands en í íslenska fjölmiðlahópnum. Gummi á .Net nötrar og Jóhann Ingi á mbl.is er dottinn í svartsýniskast og óttast að allt fari illa í kvöld.
Fyrir leik
Bæði lið eru mætt út á grasið í upphitun við dynjandi danstónlist. Það er alvöru hljóðkerfi á leikvangnum. Eftir sólríkan dag eru komin dökk ský yfir vellinum og samkvæmt spám þá gæti rignt á leikmenn í kvöld.
Fyrir leik


Það er spennandi kvöld framundan! Heeeldur betur.
Fyrir leik
Fyrir leik
Ein breyting
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, gerir eina breytingu frá 6-0 sigrinum gegn Hvíta-Rússlandi. Amanda Andradóttir, sem átti mjög góðan leik þar, fer á bekkinn og kemur Svava Rós Guðmundsdóttir kemur inn.

Fyrir leik


Íslenska liðið er mætt á leikvanginn og búið að taka hinn hefðbundna göngutúr um völlinn.
Fyrir leik


Mist Rúnarsdóttir, Heimavöllurinn
Ég er að tryllast úr spenningi fyrir þessum leik og hef góða tilfinningu fyrir honum. Verkefnið er vissulega ærið en það er skemmtilegast þannig.

Það má reikna með að Hollendingar verði meira með boltann og okkar konur þurfa að halda góðri einbeitingu, halda áfram að spila agaðan varnarleik og láta föstu leikatriðin og skyndisóknirnar telja. Liðið má samt ekki vera of passíft og það þarf að láta eldfljótum og sóknarsinnuðum Hollendingum líða óþægilega þegar þær koma hátt upp á völlinn. Hvaða áhrif nýr þjálfari nær að hafa á hollenska liðið verður svo bara að koma í ljós.

Mér fannst landsliðið okkar sýna það í síðasta leik gegn Hollandi að Ísland geti vel náð í úrslit. Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá hjá báðum liðum en þróunin hefur að mínu mati verið jákvæðari hjá okkar konum - og körlum í brúnni. Liðið fór taplaust í gegnum EM og þar var heilmikinn lærdóm að draga. Eitthvað sem án efa nýtist í dag.

Fjögur EM í röð og nú er komið að því að taka næsta skref. Ég spái 1-1 jafntefli. Dagný með okkar mark eftir hornspyrnu og við sleppum við fjallabaksleiðina til Eyjaálfu.

Fyrir leik


Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar
Fyrir fram þá sér maður leikmyndina fyrir sér að Hollendingar verði meira með boltann og íslenska liðið beiti skyndisóknum. Þó verða Hollendingar að vera skynsamar í sínum aðgerðum þar sem íslenska liðinu dugar jafntefli úr þessum leik til að komast beint á HM. Það verður athyglisvert að sjá hvernig hollenska liðið velur að byrja leikinn.

Tvisturinn fyrir þjálfara íslenska liðsins í undirbúningnum fyrir þennan risa leik er að það er nýr þjálfari tók við stjórn hollenska liðsins og hefur sá haft lítinn tíma til undirbúnings og aðeins stjórnað liðinu í einum leik, í seinustu viku í 2-1 sigri gegn Skotlandi í gríðarlegri stemningu á pakkfullum heimavelli Hollendinga. Þar pressuðu Hollendingar Skotana mjög framarlega í upphafi leiks og skoruðu strax á tíundu mínútu. Veikleiki þeirra kom þó í ljós í næstu sókn Skota þegar þær komust á bak við vörn Hollendinga og einar í gegn og jöfnuðu leikinn. Þá áttu Hollendingarnir í erfiðleikum með að verjast föstum leikatriðum Skota sem sköpuðu sér ansi gott færi á að komast yfir í leiknum úr einu þeirra.

Það verður þá athyglisvert að sjá hvernig íslenska liðið velur að byrja leikinn. Á hvaða tímapunktum mun íslenska liðið pressa, verður strax farið í lágpressuna? Hollendingarnir sýndu gegn Skotum að þær eru eiturfljótar upp völlinn í skyndisóknum sínum þannig að þetta er flókinn leikur að setja upp fyrir þjálfarateymi íslenska liðsins sem er alveg örugglega að rýna í þennan Skotaleik alveg fram á upphafsflaut á þriðjudag.

Möguleikar íslenska liðsins verða að teljast góðir. Hópurinn er samstilltur og ágætis jafnvægi í liðinu; liðið getur beitt hættulegum skyndisóknum og er stórhættulegt í föstum leikatriðum.

Það er spenna í loftinu, ég spái jafntefli 2-2.
Fyrir leik


Adda Baldursdóttir, sérfræðingur og miðjumaður Vals
Tilfinningin fyrir leiknum er góð. Mér fannst góður bragur á leik okkur á móti Hvít-Rússum. Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að andstæðingar okkar hafi í besta falli verið mjög slakar. Við kláruðum leikinn mjög fagmannlega og héldum tempói í leiknum allan tímann. Skiptingarnar voru góðar og þar ber helst að nefna kröftuga innkomu Selmu Sólar. Steini er búinn að búa til mikla samkeppni í liðinu með því að treysta mörgum leikmönnum til að byrja og svo hefur hann gert margar skiptingar í leikjum. Þetta hefur gert það að verkum að þegar hann gerir breytingar í leikjum höfum við undantekningarlaust haldið dampi.

Við erum í þeirri stöðu sem við viljum vera. Stjórnum okkar eigin örlögum. Mér finnst vera 'moment' með okkur. Margir leikmenn okkar eru á góðum stað á sínum ferli. Leikurinn á þriðjudaginn verður sá mikilvægasti fyrir kvennafótbolta í langan tíma. Við getum tryggt okkur beint á HM í fyrsta skipti í sögunni.

Ég hugsa að hann stilli upp mjög svipuðu liði og á föstudaginn. Helstu spurningamerkin eru hvort hann haldi Ingibjörgu inni eða muni setja Guðrúnu inn aftur. Hann gæti líka hugsað til þess að setja Elísu í vinstri bakvörð þar sem hún er meiri varnarbakvörður en Áslaug Munda og þá mögulega fært Mundu á kantinn. Amanda var gríðarlega öflug í leiknum á föstudaginn bæði út á velli og svo er hún með frábærar spyrnir í föstum leikatriðum, en það er spurning hvort hann haldi henni inni í þessum stórleik.

Hollendingar eru með nýjan þjálfara sem er spurningamerki. Ég tel okkur vera mæta þeim á fínum tíma. Það var ekki góður bragur yfir þeim á Evrópumótinu, Lieke Martens er meidd og þá hefur Mideama verið að glíma við eftirköst af Covid. Undir stjórn Marks Parsons (fyrrum þjálfara) pressuðu þær andstæðinga hátt en gerðu það ekki nægilega vel, auk þess eru þær með þunga hafsenta sem lentu oft í vandræðum með að stíga hátt með línuna. Ég vona að þær haldi því áfram því þá mun skapast pláss fyrir Sveindísi til að hlaupa í.

Ég held að Steini vilji pressa hátt fyrstu 15-20 mínúturnar. Við erum með gott hápressulið. Glódís vill ýta varnarlínunni sinni ofar og miðjan með Söru og Dagný eru góðar að vinna seinni bolta. Ef það tekst ekki líður okkur líka ágætlega i lágvörn þar sem við erum skipulagðar og fastar fyrir. Það hefur reynst okkur vel að beita skyndisóknum þar sem við erum með eldfljóta Sveindísi klára í að elta bolta aftur fyrir varnir.

Það verður lykilatriði fyrir okkur á þriðjudaginn að Sara haldi áfram að spila eins vel og hún hefur sýnt í tveimur seinustu leikjum okkar. Berglind þarf að vera klók að finna sér svæði og vera nálægt bolta til þess að geta haldið honum fyrir okkur. Varnarlega mun mæða mikið á Söndru og Glódísi, þær þurfa eiga sinn allra besta leik sem og allt liðið í raun.

Ég spái, 1-2, Dagný og Berglind með mörkin.
Fyrir leik
Spilum ekki upp á jafntefli


Við förum ekki inn í leikinn og spilum upp á jafntefli. Við ætlum að gera okkar besta til að vinna. Við erum með þetta í okkar höndum og jafnteflið nægir en þú getur ekki spilað upp á jafntefli. Ef þú færð þú ert með þannig hugarfar, þá ertu í vandræðum. Við förum inn í leikinn og sjáum hvað gerist," sagði Þorsteinn Halldórsson.

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, hefur trú á góðum úrslitum í kvöld ef íslenska liðið sýnir sínar bestu hliðar.

"Já, þetta er stór leikur. Við gerum okkur fulla grein fyrir því. Við getum skrifað okkur í sögubækurnar með því að ná góðum úrslitum. Við þurfum að spila leikinn. Þetta er mikilvægur leikur og gæti orðið einn sá mikilvægasti hingað til."

"Þær eru hærra skrifaðar en við, þær eru með magnað lið og frábæra leikmenn. Eigum við möguleika? Klárlega. Þetta verður erfiður leikur. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna leikinn," sagði Sara.

"Ég segi bara það sama. Þær eru með allt til að vera með mikið gæðalið. Við þurfum að eiga okkar besta leik til að fá úrslitin sem við viljum," sagði Steini.

"Ég hef mikla trú á því að við förum beint á HM ef við sýnum okkar bestu hliðar. Þetta verður erfiður og krefjandi leikur, en við erum tilbúnar," sagði Sara.
Fyrir leik


"Miðað við þann leik verður ekki mikið af breytingum. Áhersluatriðin eru að mörgu leyti keimlík," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi er hann var spurður út í lið Hollands.

Hollendingar ráku enska þjálfarann Mark Parsons eftir EM og réðu nýverið nýjan þjálfara, Andries Jonker. Jonker er með áhugaverða ferilskrá, en hann hefur komið víða við. Hann aðstoðarstjóri Barcelona 2002-03 og svo var hann aðstoðarstjóri Louis van Gaal hjá Bayern München. Þá var hann yfirþjálfari akademíunnar hjá Arsenal fyrir nokkrum árum. Síðast var hann aðalþjálfari Telstar í Hollandi en hann hefur aldrei þjálfað kvennalið áður - ekki fyrr en núna.

Hann stýrði hollenska liðinu í fyrsta sinn síðastliðið föstudagskvöld í 2-1 sigri í æfingaleik gegn Skotlandi. Steini segir að það séu ekki miklar breytingar á hollenska liðinu - allavega miðað við þennan fyrsta leik hjá nýjum þjálfara. Steini og hans teymi eru búin að skoða liðið vel fyrir leikinn mikilvæga sem er framundan.

Holland hefur tvisvar gert jafntefli við Tékkland í riðlinum og var Steini spurður að því á fréttamannafundi í dag hvort hann hefði skoðað þá leiki sérstaklega.

"Við rýndum vel í síðasta leikinn gegn Skotlandi. Við höfum rýnt í Tékkaleikina áður þegar við vorum að skoða Tékkana og fyrir fyrri leikinn heima. Ég held að við séum þokkalega undirbúin og gerum okkur þokkalega grein fyrir hvað þarf til að vinna þær."Ein stærsta stjarnan ekki með
Það voru stórar fréttir í aðdragandanum þegar kom í ljós að Lieke Martens yrði ekki með Hollandi vegna meiðsla. Hún er 29 ára gömul og leikur með Paris Saint-Germain í Frakklandi. Hún er gríðarlega öflugur leikmaður og svekkjandi fyrir Hollendinga að hún sé ekki með.

"Ég persónulega held að það breyti ekki rosalega miklu. Hún er frábær leikmaður en þær eru með breiðan hóp og ég held að það komi maður í manns stað," sagði landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir á fundinum er hún var spurð út í Martens.

"Það er engin stórkostleg breyting þannig séð. Eina stóra breytingin er sú að sem spilaði vinstra megin þar (á móti Skotlandi), hún lág ekki eins mikið utarlega eins og Martens vill mikið gera," sagði Steini.

"Það er smá áherslubreyting í taktísku uppleggi þar. Hún spilar innar á vellinum sem kom inn fyrir hana á föstudaginn. Auðvitað viltu ekki missa einn þinn besta leikmann, einn þinn mest skapandi leikmann, en það eru margir leikmenn sem geta fyllt hennar skarð og gert það vel."

Báðum liðum vantar lykilmann í sitt lið. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er fjarri góðu gamni hjá Íslandi vegna meiðsla.
Fyrir leik


Við spáum því að Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, muni stilla upp sama byrjunarliði og gegn Hvíta-Rússlandi síðasta föstudagskvöld. Sá leikur vannst 6-0.

Amanda Andradóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, sem eru báðar mjög ungar, komu inn í byrjunarliðið gegn Hvíta-Rússlandi og stóðu sig vel. Steini sagði á fundinum að hann treysti þeim í allt.

"Þetta eru leikmenn sem eru efnilegir og góðir. Ég treysti þeim í allt. Ég efast ekki um að þær séu tilbúnar að spila á morgun (í kvöld). Þó þetta sé leikur sem er stærri á föstudaginn þá dreymir öllum leikmönnum að spila svona leiki," sagði Steini á fréttamannafundi í gær.

Við spáum því að Steini gera engar breytingar, en hann er til alls líklegur í þessu. Þetta er líkt og fyrr segir, gríðarlega mikilvægur leikur.
Fyrir leik


Enski dómarinn Rebecca Welch mun dæma stórleik Hollands og Íslands í undankeppni HM annað kvöld. Áhugavert er að hún dæmdi líka fyrri viðureign þessara liða í riðlinum, þegar Holland vann 2-0 útisigur á Laugardalsvelli.

Welch varð í fyrra fyrsta konan til að fá úthlutaðan leik í enska deildakerfinu karlamegin.

Natalie Aspinall og Sian Massey eru aðstoðardómarar leiksins en báðar starfa þær sem aðstoðardómarar í ensku úrvalsdeildinni. Abigail Marriott er fjórði dómari.
Fyrir leik


"Við fórum gríðarlega snemma af stað. Ég viðurkenni að það er pínu þreyta núna en það er geggjað að vera komin til Hollands. Núna fer partíið að byrja," sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir í samtali við Fótbolta.net fyrir æfingu á sunnudag.

"Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Ég trúi eiginlega ekki að það sé komið að þessu. Það er mikil tilhlökkun í hópnum að fara að spila þennan leik," segir Berglind.

"Við förum inn í þennan leik til þess að vinna og það er markmiðið. Við þurfum að eiga toppleik. Við þurfum að spila okkar besta leik. Við hugsum ekki um jafntefli eða eitthvað þannig, við ætlum að vinna þennan leik."
Fyrir leik


Þegar liðin mættust á Laugardalsvelli fyrir um ári síðan þá endaði leikurinn 2-0 fyrir hollenska liðið. Ísland er í fjórtánda sæti heimslistans en Holland í því sjötta.
Fyrir leik
ÚRSLITALEIKUR
Eins og lesendur vita flestir er þetta úrslitaleikur í riðlinum. Sigurliðið kemst beint á HM sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári, Íslandi nægir jafntefli. Þó Ísland tapi í kvöld verður HM-draumurinn þó enn á lífi en liðið þarf þá að komast í gegnum umspil.

Fyrir leik
Heil og sæl, verið velkomin með okkur í beina textalýsingu frá STÓRLEIK Hollands og Íslands sem fram fer á Stadion Galgenwaard í Utrecht. Enski dómarinn Rebecca Welch flautar til leiks 18:45. Leikvangurinn tekur 23.750 áhorfendur. Búist er við um 150 íslenskum áhorfendum en það verður ekki uppselt á leikinn.


Byrjunarlið:
1. Sandra Sigurðardóttir (m)
0. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir ('80)
2. Svava Rós Guðmundsdóttir ('46)
4. Glódís Perla Viggósdóttir (f)
6. Ingibjörg Sigurðardóttir
7. Sara Björk Gunnarsdóttir (f)
9. Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('80)
10. Dagný Brynjarsdóttir
19. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
20. Guðný Árnadóttir
23. Sveindís Jane Jónsdóttir

Varamenn:
13. Íris Dögg Gunnarsdóttir (m)
2. Sif Atladóttir
3. Elísa Viðarsdóttir
7. Selma Sól Magnúsdóttir ('46)
8. Alexandra Jóhannsdóttir ('80)
11. Arna Sif Ásgrímsdóttir
14. Hlín Eiríksdóttir
16. Elín Metta Jensen ('80)
18. Guðrún Arnardóttir
21. Ásdís Karen Halldórsdóttir
22. Amanda Andradóttir
22. Amanda Jacobsen Andradóttir

Liðsstjórn:
Þorsteinn Halldórsson (Þ)
Þorsteinn H Halldórsson (Þ)
Ólafur Pétursson
Ásmundur Guðni Haraldsson
Jófríður Halldórsdóttir
Kristbjörg Helga Ingadóttir
Ari Már Fritzson
Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir
Guðrún Þórbjörg Sturlaugsdóttir
Elísabet Ósk Guðmundsdóttir

Gul spjöld:

Rauð spjöld: